140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:27]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa náttúrlega á bug svona útúrsnúningi hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að ég sé að dæma. Ég hef engan dæmt. Ég geng hreint til verks og tala um hlutina eins og þeir eru. Ég sagði í máli mínu að við hefðum margar leiðir til að leysa úr því sem lýtur að óskum fólks til að eignast börn og að þær hefðu gefist vel. En það er alveg klárt að mínu mati og ég árétta það að opnun á staðgöngumæðrun á þennan hátt mundi hleypa öllu í bál og brand. Þá yrði kannski fyrst hættan á því sem bent er á í Matteusarguðspjalli, að dómarnir yrðu harðir.

Við eigum að fyrirbyggja það að skapa þær aðstæður að fólk missi sig. Ég tala ekki niður til eins eða neins, hef aldrei gert það, og sem betur fer hefur það orðið hamingja margra barna að gott fólk hefur tekið þau að sér og sinnt þeim, en við erum ekki að tala um það í þessu dæmi. Við erum að tala um alþjóðleg viðskipti sem eru hættuleg, stórhættuleg, ekki síst með tilliti til þess að við verðum að rækta og styrkja þann siðferðisgrunn sem íslenskt samfélag byggir á.