140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef setið í félagsmálanefnd, núna velferðarnefnd, og ég hygg að í mínum huga séu fá mál sem hafi verið rædd annað eins og þetta ágæta mál sem við hér ræðum, þar sem hefur verið kallað í jafnmarga gesti og sem hefur verið óskað eftir jafnmörgum umsögnum og þar sem málin hafa verið rædd með jafnmiklum tilfinningahita. Nú má vel vera, hv. þingmaður er ekki í þessum nefndum eða var ekki í þessum nefndum og þekkir þar af leiðandi ekki þessa umræðu, að hans flokkssystkini hefðu getað upplýst hann um það sem var í gangi í þessum nefndum. Þetta er búið að fara í gegnum mjög mikla umræðu, enda heyrir hann það hérna að mjög skiptar skoðanir eru um málið, siðferðilega skiptar skoðanir. Ég virði verulega, og gat þess sérstaklega hér áður, skoðanir þeirra sem eru á móti öllu þessu, ég get vel skilið þá. En þeir sem samþykkja t.d. tæknifrjóvgun fyrir samkynhneigða, sem er álitamál fyrir suma, ekki fyrir mig — þetta er mjög sambærilegt og ekki síðra mál.

Varðandi að þetta sé flokkspóltískt og eitthvað slíkt þarf ekki annað en að fara í gegnum hverjir eru flutningsmenn, þeir koma nánast úr öllum flokkum, Framsókn, Vinstri grænum, Samfylkingunni o.s.frv., þannig að ég held að það hafi ósköp lítið með flokkspólitík að gera. Þetta eru siðferðileg álitamál. Ákveðnar breytingar hafa átt sér stað og því spyr ég hv. þingmann: Hefur hann ekki áttað sig á þeim breytingum sem læknavísindin hafa tekið forgöngu um og þvingað okkur til að taka afstöðu til, t.d. með lífrænt ræktað gras eða gras sem er ræktað með tæknilegum hætti? Ég veit ekki annað en að hv. þingmaður hafi mikla skoðun á því.