140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu. Umræðan sem hefur átt sér stað um Evrópusambandið hefur verið góð.

Mig langar til að benda á að ríkisstjórnarflokkarnir stunda bara stundum lýðræði og þeir vilja til dæmis senda skýrsluna sem stjórnlagaráð samdi í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki þá tillögu sem ég hef lagt fram í þinginu um að þjóðin fái að kjósa hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, heldur þessari þingsályktunartillögu minni í nefndinni og hleypir henni ekki fyrir þingið sem veldur því að dagsetningin í þingsályktunartillögunni, að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli fara fram fyrir 1. mars, er fallin úr gildi. Það þarf nefnilega þrjá mánuði til að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla því að kynna hér þá breytingartillögu sem ég er að láta vinna fyrir mig á nefndasviði um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða forsetakjöri. Það er ljóst að forsetakosningar fara fram í sumar og því er upplagt að samhliða fái þjóðin að segja álit sitt á því hvort sú leið sem ríkisstjórnin er á, að svelta okkur inn í Evrópusambandið, sé fær eða ekki. Þá fær ríkisstjórnin með veganesti. Eins og kom fram (Gripið fram í.) í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar eru 60–70% íslensku þjóðarinnar á móti því að þessi leið verði farin. Ég fagna því að sú breytingartillaga komi fram og að þá hljótist ekki aukakostnaður af þjóðaratkvæðagreiðslunni því að hún fer fram samhliða annarri kosningu.