140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og svör hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða. Ljóst er að reynslan af þessum breytingum, það sem af er, er sú eins og kom fram í máli málshefjanda, hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, að ekki hefur náðst að tryggja jafnræði í dýralæknisþjónustu á öllu landinu. Það næst ekki að tryggja dýravelferð á öllu landinu og erfitt er að fá dýralækna til starfa á ákveðnum svæðum. Það er grundvallaratriði, herra forseti, að það verði upplýst og vinna hefjist við það að tryggja þá þætti.

Ég saknaði þess í máli hæstv. ráðherra að fram kæmu svör við þessum spurningum: Hvernig á að tryggja jafnræði að dýralæknisþjónustu á öllu landinu? Hvernig á að tryggja dýravelferð á öllu landinu? Hvernig á að tryggja að hægt verði að fá dýralækna til starfa á ákveðnum svæðum?

Það er gríðarlega mikilvægt, sér í lagi á dreifbýlum svæðum, að leitað sé lausna í þessu efni. Ég treysti því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geri það. Þetta er grunnurinn undir veikum svæðum, þetta er grunnurinn að því að hægt sé að reka þar og efla matvælaframleiðslu og landbúnað og auka fæðuöryggi þjóðarinnar, þ.e. að hægt sé að nálgast dýralæknisþjónustu á öllu landinu, hvort heldur er á þéttbýlum eða dreifbýlum svæðum.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra fari í seinni umferð yfir það hvernig eigi að tryggja slíka þætti og að sett verði í gang vinna í þá veruna að tryggja þetta.