140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:09]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra talar mikið um sólina og að hún sé að rísa hjá framsóknarmönnum. Það er mikið rétt hjá hæstv. ráðherra að þannig er ástandið á þeim bænum en það sama verður ekki sagt um þá ríkisstjórn sem hæstv. ráðherra tilheyrir, þó ekki alveg í öllum málum eins og þekkt er orðið.

Það góða við þá þingsályktunartillögu sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram og það jákvæða við hana er að ekki er meiri hluti fyrir þessari áætlun að öllu óbreyttu. Það liggur fyrir. Fulltrúar stjórnarflokkanna hafa sagt, einstakir þingmenn, að þeir munu ekki styðja þá áætlun sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram nema gerðar verði á henni breytingar. Það er jákvætt vegna þess að við erum að ræða um metnaðarlausustu áætlun í samgöngumálum sem hefur litið dagsins ljós. Það er ekki eins og á síðustu öld, að menn fari í vegagerð með haka og skóflu. Tækninni hefur fleygt fram og við búum við betri tæki og tól en áður var, en miðað við þær áætlanir sem hér liggja fyrir gæti maður haldið að þetta væri samgönguáætlun sem hefði litið dagsins ljós fyrir 40 til 50 árum. En sem betur fer búum við ekki við þann veruleika.

Annað er jákvætt við þetta mál sem ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir. Hann vill að við framsóknarmenn komum inn í þessa umræðu með uppbyggilegum hætti og ekki skal standa á því. (Gripið fram í.) Ég hef þegar nefnt einn mjög mikilvægan og jákvæðan þátt við málið, þ.e. að þingsályktunartillagan hefur ekki meiri hluta að öllu óbreyttu. Vonandi getum við framsóknarmenn þá haft áhrif í þinglegri meðferð málsins þannig að við getum séð meiri framkvæmdir en þessi þingsályktunartillaga mælir fyrir um.

Atriði númer tvö sem mér finnst jákvætt við málið er málefni Reykjavíkurflugvallar. Mér sýnist og ég les það út úr áætluninni að hæstv. innanríkisráðherra ætli sér að beita sér fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur verði í Vatnsmýrinni lengur en til ársins 2016, þar sé hans staður enda efast ég um að við höfum yfir höfuð efni á því að setja marga milljarða króna í að byggja upp flugvöll á Hólmsheiði eða í Reykjanesbæ. Veruleikinn er einfaldlega sá. Menn tala um að hér sé um kjördæmapot að ræða, ég vil þá minna á að þeir sem hafa hagsmuni af því að Reykjavíkurflugvöllurinn sé þar sem hann er, er höfuðborgin sjálf. Um eitt þúsund manns hafa lifibrauð sitt með einum eða öðrum hætti af starfsemi hans, það er jákvætt. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að einbeita sér mjög ákveðið að þessu verkefni og ræða við borgaryfirvöld um það hvernig við getum tryggt starfsemi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, að því ógleymdu að stefna núverandi ríkisstjórnar er sú að byggja upp hátæknisjúkrahús í nágrenni Vatnsmýrarinnar. Við hljótum því að gera þá kröfu að miðstöð innanlandsflugs verði ekki langt frá þeim mikilvæga stað vegna þess að Landspítalinn er endastöðin í heilbrigðiskerfinu og því mikilvægt öryggistæki fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem og landsbyggðarinnar.

Við framsóknarmenn héldum flokksþing á síðasta ári þar sem við fórum yfir stöðu efnahags- og atvinnumála og þar var sérstaklega litið til samgöngumála. Við höfum horft upp á verkefnaskort hjá verktökum á höfuðborgarsvæðinu og vítt og breitt um landið í kjölfar hrunsins. Nú er svo komið að mörg þau verk sem voru í gangi þegar hrunið átti sér stað eru því miður búin og verkefnaskortur blasir við mörgum verktökum þess vegna. Því ól maður þá von í brjósti að þessi þingsályktunartillaga væri metnaðarfyllri þegar kemur að framkvæmdum á sviði samgöngumála í landinu. Það er einfaldlega sveltistefna í gangi í atvinnumálum hjá ríkisstjórninni hvort sem við lítum til framkvæmda í orkufrekum iðnaði og þess óstöðugleika sem einkennir starfsumhverfi sjávarútvegsins eða þá til þessarar metnaðarlausu áætlunar sem hæstv. innanríkisráðherra leggur fram. Það þarf að bæta í.

Mér finnst merkilegt að þingmenn stjórnarflokkanna sem treystu sér til að afgreiða Icesave-samninginn hinn fyrri á Alþingi, sem hljóðaði upp á að íslenskir skattborgarar ættu að borga 42 milljarða í vexti af þeim samningum árlega, samning sem hefði kostað ríkissjóð nokkur hundruð milljarða króna, að þeir geti ekki séð af, þó það væru ekki nema nokkrir milljarðar inn í fjögurra ára áætlun til verklegra framkvæmda. Icesave-samningarnir voru með þeim hætti að þá hefðum við þurft að greiða í formi gjaldeyris. Það hefðu verið fjármunir sem hefðu farið út úr íslenska efnahagskerfinu og þar af leiðandi hefðu þeir ekki haldið áfram að vinna innan lands eins og ef við mundum setja fjármuni til samgönguframkvæmda.

Það er nefnilega málið að samgönguframkvæmdir eru margar hverjar arðbærar. Í fyrsta lagi auka þær öryggi þeirra sem nýta vegi landsins. Í öðru lagi stytta þær oftar en ekki vegalengdir — ég ætla að ræða eldsneytisverðið á eftir, hvort láglaunafólk hafi yfir höfuð efni á því að reka bíl eins og umhverfið er í dag. (Gripið fram í.) Í þriðja lagi skapa þessar framkvæmdir umsvif og atvinnu þannig að verktakar í landinu hafa verkefni, þurfa væntanlega þá að nota eldsneyti til þeirra verkefna og þá fengi ríkissjóður aldeilis sitt. Þeir þurfa að borga virðisaukaskatt af þeim afurðum sem nota þarf til verksins og síðast en ekki síst þarf að ráða fólk til framkvæmdanna, fólk sem nú er án atvinnu, fólk sem mundi þá borga til ríkis og sveitarfélaga skatt og útsvar. Þannig mundum við minnka atvinnuleysið í landinu og auka umsvifin.

Það er grundvallarmunur á útgjöldum tengdum Icesave-samningunum sem ríkisstjórnarmeirihlutinn vildi samþykkja á fyrri stigum og til arðbærra framkvæmda í samgöngumálum. Þetta er grundvallarmunur. Og hafi einhvern tíma verið þörf á að sýna metnað og áræðni til að auka við arðbærar framkvæmdir í samgöngumálum þjóðarinnar — og nú má þingheimur ekki misskilja mig þannig að ég sé að gera hæstv. innanríkisráðherra þær skoðanir upp, síður en svo. Hæstv. ráðherra þarf einfaldlega að spila úr þeim fjármunum sem ríkisstjórnin ákvarðar og hann á alla mína samúð í þeim efnum vegna þess að við framsóknarmenn teljum að meiri fjármuni þurfi inn í þennan málaflokk.

Ég ætla að koma með eitt dæmi. Í kjölfar hrunsins hrundi fjárfesting innan lands. Meðaltalsfjárfesting síðustu áratuga hér á landi er 21% af landsframleiðslu. Í dag er hún einungis 13%. Það vantar 8% upp á að við náum upp í meðaltalsfjárfestingu innan lands samanborið við síðustu áratugi og 8% af 1.800 milljörðum, sem er nálægt þjóðarframleiðslu, eru 140 milljarðar kr. sem gætu verið í árlegri fjárfestingu hér á landi. Sem mundu skapa störf og virðisauka, auka tekjur ríkissjóðs, auka tekjur sveitarfélaganna, bæta umhverfi atvinnulífsins og ekki síst bæta stöðu skuldugra heimila, margra fjölskyldna sem hafa ekki atvinnu í dag og eru nú um þessar mundir að horfast í augu við þann napra veruleika að þurfa jafnvel að yfirgefa landið sitt til að hverfa til starfa til að mynda í Noregi, þangað sem þúsundir Íslendinga hafa því miður þurft að flytja á undanförnum árum. Þessi sveltistefna, þetta er eins og hundur sem eltir skottið á sér endalaust. Þetta dæmi gengur einfaldlega ekki upp.

Mig langar að nefna eitt mál sem brennur á mér sem þingmanni Norðausturkjördæmis og það eru málefni Norðfjarðarganga. Ef menn hefðu staðið við þær yfirlýsingar sem gefnar voru hefði sú framkvæmd átt að hefjast á síðasta ári, þ.e. í kjölfar verkloka Héðinsfjarðarganga. Í fyrra og á þessu ári má áætla að til séu um 1,5 milljarðar til að ráðast í þá brýnu framkvæmd. Ég vil minna á að á Norðfirði, og hæstv. ráðherra þekkir það væntanlega, er Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og Verkmenntaskóli Austurlands. Það er yfir mjög háan fjallveg að fara til að komast innan sveitarfélagsins Fjarðabyggðar til að nýta þá þjónustu sem Fjórðungssjúkrahúsið til dæmis veitir íbúum fjórðungsins.

Nú er það reyndar svo og við heyrum það í fréttum að uppi eru hugmyndir um að loka sjúkradeildinni á sjúkrahúsinu í Neskaupstað í sumar í sex vikur. Þetta eru hugmyndir sem forsvarsmenn þess sjúkrahúss hafa vegna þess að búið er að skera svo mikið niður í heilbrigðisþjónustu landsins. Það eru náttúrlega grafalvarleg tíðindi og í raun og veru átta ég mig ekki á því hvernig það reikningsdæmi getur gengið upp vegna þess að fólk liggur inni á þeirri deild. Hvað á að gera? Á að flytja fólk hreppaflutningum til Akureyrar eða Reykjavíkur? Hvers lags stefna er þetta? (Innanrrh.: Þú ert með nóg af peningum.) Hæstv. ráðherra kallar fram í að ég sé með nóg af peningum til þessara verkefna. Ég er að segja að með því að hverfa af þeirri braut að auka ekki umsvifin í samfélaginu, breyta skattkerfinu og auka hvatann til að fara að fjárfesta að nýju í íslensku atvinnulífi, aflétta vafanum í sjávarútveginum, afgreiða rammaáætlun sem átti að birtast fyrir áramót — ég vil nefna það í þessu samhengi að þessi þingsályktunartillaga er ári of seint á ferðinni. Það er ekki gott fyrir samgöngumál einnar þjóðar að málum sé svo komið.

Mér finnst það mjög slæmt að þingsályktunartillagan skuli vera lögð fram til Alþingis á þennan hátt. Ég tel að ríkisstjórnin í heild sinni og stjórnarmeirihlutinn beri ábyrgð á því. Það góða er að ekki er meiri hluti fyrir þessari áætlun óbreyttri, þannig að vonandi getum við með uppbyggjandi hætti — og af því að hæstv. ráðherra kallar eftir því að Framsóknarflokkurinn komi með bjartsýni inn í þessa umræðu þá er ég bjartsýnn á að við getum breytt þessari stefnu, að við getum aukið við framkvæmdir. Hæstv. innanríkisráðherra hefur væntanlega spurt við ríkisstjórnarborðið þegar hann barðist fyrir því að ná fjármunum til þessara mála hvort hinir sömu aðilar sem sátu við það borð hafi þá treyst sér til að borga nokkur hundruð milljarða í Svavarssamningana svokölluðu tengda Icesave-málinu. Því að það má hæstv. innanríkisráðherra eiga að þar stóð hann í lappirnar. Þess vegna hefði mér ekki fundist það ofrausn þó að hæstv. ráðherra fengi það verðlaunað með einhverjum hætti, til að mynda með fjárframlögum til samgöngumála. Kannski er hugur hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra til hæstv. ráðherra með þeim hætti að hann skuli bera þetta mál. Þetta eru þungar byrðar sem hæstv. innanríkisráðherra þarf að bera vegna þess að metnaðarleysið er svo mikið í þessari áætlun, enda er úr litlum fjármunum að spila. En ég er ekki viss um að þeim leiðist það, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að horfa á hæstv. innanríkisráðherra Ögmund Jónasson koma og réttlæta þá þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram.

Það að ætla að byrja á Norðfjarðargöngum árið 2015, herra forseti, þegar búið er að gefa fólki væntingar um að þær framkvæmdir ættu að hefjast árið 2011, eru einfaldlega ekki góð skilaboð. Það er engin bjartsýni sem felst í þeim skilaboðum frá ríkisstjórninni til íbúa á Austurlandi í þessum efnum. Það er þess vegna sem ég kem hér fram uppblásinn af bjartsýni um að við getum breytt þessari áætlun. Nú skulum við setjast yfir málið og ég heiti því gagnvart hæstv. innanríkisráðherra að við framsóknarmenn og trúlega stjórnarandstaðan öll mun bakka hæstv. innanríkisráðherra upp í því að ná fram meiri framkvæmdum á næstu fjórum árum í samgöngumálum þjóðarinnar vegna þess að það er algert lífsspursmál.

Ég næ því miður ekki, í ljósi þess hversu stuttur tíminn er, að fara yfir þetta umfangsmikla mál, fara yfir allar þær gjaldahækkanir sem notendur þjóðveganna hafa orðið fyrir á undangengnum árum. Núna um áramót hækkaði olía og bensín um 4 kr. af völdum ríkisstjórnarinnar og búið er að hækka enn frekar gjöldin á bíleigendur í landinu. Þetta kemur ofan í alþjóðlega þróun sem hefur valdið því að nú kostar bensínlítrinn 240 kr. og dísillítrinn 255 kr.

Mig langar að síðustu að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að láglaunafjölskylda geti staðið straum af því að reka bíl þegar kostnaðurinn er orðinn slíkur og ekki hvað síst ef sú fjölskylda býr í dreifbýlu sveitarfélagi og þarf að ferðast um langar vegalengdir.