140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um flugið. Ég held að við séum sammála um að það þurfi að skoða hvort hægt sé að leysa þetta mál.

Það er alveg ljóst að upphæðin sem um er að ræða eru 500 milljónir í malbik á tengivegum. Ég held hins vegar að við verðum að taka umræðuna, þá á ég við okkur þingmenn, Vegagerðina og fleiri, um það hvernig þessum fjármunum er best varið. Gerum við hugsanlega of miklar kröfur til undirbúnings og uppbyggingar á einhverjum stöðum? Er hægt að nýta fjármunina betur með því að fara aðrar leiðir? Ég hef minna vit á því en margir aðrir hvort slíkt er hægt en við þurfum að ræða þau mál. Þegar við erum með litla fjármuni og ekki líkur á því að þeir aukist, m.a. út af ástæðum sem ég nefndi áðan, þurfum við vitanlega að fara yfir það hvernig við getum nýtt fjármunina sem best. Það hafa verið uppi hugmyndir um að leggja á vegi og breyta þeim sem minnst, fara ekki í beygjur og þess háttar. Vissulega eru ákveðin rök á móti því.

Áætlunin er nú til fyrri umræðu. Umhverfis- og samgöngunefnd mun að sjálfsögðu taka hana til meðferðar og örugglega gera á henni einhverjar breytingar. Það er hins vegar mikil áskorun, held ég, fyrir hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla að sýna okkur fram á að hugsanlega sé hægt að auka í alla þessa áætlun með því að spýta í atvinnulífið þannig að við fáum meiri tekjur. Af niðurstöðu síðasta hluta áætlunarinnar verður ekki annað séð en búist sé við miklu blómaskeiði, svakalegum hagvexti og miklum tekjum í ríkissjóð. Ég sé ekki að það verði (Forseti hringir.) miðað við núverandi stefnu.