140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þess er fyrst að geta að það er ekki eins og það sé sami maðurinn sem talar í ræðustól þingsins og sá sem skrifar á heimasíðu sem kennd er við Björn Val Gíslason vegna þess að ræðan sem hér var flutt var töluvert yfirvegaðri en þau skrif sem þar hafa birst undanfarna daga.

Það sem hv. þingmaður segir þegar hann útskýrir málið fyrir hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni er að hann hafi áhyggjur af því að það hafi alvarleg áhrif fyrir dómskerfið verði tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar samþykkt, en þá verður maður að biðja hv. þingmann að lesa heimasíðuna sem við hann er kennd. Þar er ekkert verið að tala um dómskerfið. Þar er verið að tala um pólitík, áhrif atkvæðagreiðslunnar hér í dag með mjög víðri skírskotun til hinna ýmsu mála sem tengjast pólitík og það er það sem hv. þingmaður hefur ekki útskýrt.