140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég er almennt á móti því að við ástundum hringlandahátt með stjórnskipuleg málefni á Íslandi. Ég er fylgjandi því að Alþingi reyni eftir fremsta megni að standa við orð sín og fylgja til enda ferli sem það er búið að ákveða að hefja. Það var ákveðið að birta Geir H. Haarde ákæru og taka það mál fyrir landsdóm. Landsdómur hefur komið saman. Hann hefur hafið störf. Þó að ég hafi verið á móti því að ákæra er ég fylgjandi því að við klárum þetta ferli vegna þess að í fyrsta lagi hef ég séð ekki neina ástæðu til þess í ferlinu í sjálfu sér að við hættum við það og líka einfaldlega vegna þeirra sjónarmiða að við ákváðum eitthvað og þá verðum við að kunna að standa við ákvörðunina. Landsdómur þarf frið til að ljúka umfjöllun sinni um þetta risastóra ágreiningsmál um hvort Geir H. Haarde sé sekur eða saklaus.

Ég tel að við þurfum að gefa landsdómi frið (Forseti hringir.) með því að vísa frá þessari tillögu sem hér hefur verið lögð fram.