140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir.

[13:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á fundi allsherjar- og menntamálanefndar á fimmtudaginn kynnti ráðuneyti innanríkismála og líka fulltrúar frá Europol og lögreglunni ákveðna vinnu sem er í gangi, m.a. sem tengist því að kortleggja skipulagða glæpastarfsemi. Eins og komið hefur fram voru þær upplýsingar mjög sláandi. Það er eðlilega verið að sýna þróunina víða um Evrópu og ég held að menn geti ekkert dregið dul á að það er ekki ólíklegt að þetta festi rætur hér á landi. Það er byrjað, þessi starfsemi er að einhverju leyti búin að festa rætur hér en það er líka alveg ljóst að það er þverpólitísk samstaða um að koma í veg fyrir að það verði til langframa. Ég fagna því sérstaklega að skynja aukið samstarf milli ráðuneytisins og allsherjarnefndar þingsins og þingsins alls um þetta mál. Ég fagna því framtaki, bæði ráðuneytisins en ekki síður af hálfu lögreglunnar sem hefur greinilega puttana á púlsinum í þessu máli eins og mörgum öðrum.

Síðan erum við með til umfjöllunar í nefndinni þingmannamál frá Siv Friðleifsdóttur o.fl. um forvirkar rannsóknarheimildir sem tengjast meðal annars þessu máli. Ég sé á þingmálaskránni að hæstv. innanríkisráðherra ætlar að leggja fram þingmál sem tengist forvirkum rannsóknarheimildum þann 1. mars. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hyggist gera það fyrr en síðar, ekki síst í ljósi þeirra upplýsinga sem við búum nú yfir, og hvort hann sé mér ekki sammála í því að það verði að ríkja þverpólitísk samstaða um þessi mál og baráttuna um það að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Það er um að gera fyrir okkur, sem hér erum, að senda skýr skilaboð til þeirra glæpagengja sem hugsanlega vilja vera hér á landi sem annars staðar. Er ekki heimildin fyrir forvirkum rannsóknarheimildum liður í þeirri baráttu að koma í veg fyrir að svo verði?