140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað til að ræða það sem hv. þm. Skúli Helgason ræddi á undan mér. Ég tel mjög mikilvægt að við sem þingheimur tökum skilmerkilega afstöðu til þessara stóru mála er varða auðlindarentuna og auðlindir landsins almennt. Við erum að fara í gegnum mjög metnaðarfullt prógramm hvað varðar rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúruauðlinda okkar, hvort heldur er í jörðu niðri eða í vatnsföllum, og það verk er að mörgu leyti til fyrirmyndar og ætti að verða okkur til framdráttar í pólitík og þjóðmálaumræðu á næstu árum. Við erum jafnframt að taka til umfjöllunar efni er varðar það hvernig við ætlum að nýta auðlindir okkar og taka af þeim eðlilega rentu. Þetta hefur að mínu viti vantað inn í íslenska þjóðmálaumræðu á undanliðnum árum. Menn hafa ekki þorað að takast á við þetta efni á forsendum þjóðarinnar, heldur hafa þeir fremur tekist á um þetta efni á forsendum atvinnugreinanna, á forsendum sérhagsmunanna.

Nú er verið að taka á þessu efni á forsendum almannahagsmuna og það er vel. Það er jafnframt mjög skilmerkileg breyting á aðkomunni að þessu máli. Nú ætlum við að sjá hver hinn eðlilegi hlutur almennings er í þjóðarauðlindum okkar og þar verðum við að hafa hag þjóðarinnar í huga. Þá vil ég jafnframt geta þess að það er líka hagur þjóðarinnar að þau fyrirtæki sem starfa í umhverfi auðlindanna séu áfram vel rekin og geti áfram verið arðbær. Það er líka hagur þjóðarinnar þannig að með breytingunni skulum við hafa hag almennings í huga en líka þegar kemur að rekstri fyrirtækja í landinu sjálfu. Þegar hagsmunir Íslendinga eru hafðir í huga (Forseti hringir.) er það ekki síst í gegnum lítil og meðalstór fyrirtæki sem bera uppi hagvöxt okkar Íslendinga.