140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

upplýsingalög.

366. mál
[17:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fjalla örstutt um þetta frumvarp við 1. umr. Eins og fram hefur komið er frumvarpið viðamikið og felur í sér margháttaðar breytingar á upplýsingalögunum. Stóra skrefið í sambandi við upplýsingamál hins opinbera var stigið þegar núgildandi upplýsingalög voru sett á sínum tíma á síðasta áratug síðustu aldar, en þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir eru vissulega veigamiklar. Undir það má taka að ástæða hafi verið til að taka ýmis ákvæði laganna til endurskoðunar en eins og fram kom við umræður um þetta mál á síðasta þingi þá sýnist sitt hverjum um afraksturinn.

Ég vil þó til að byrja á jákvæðum nótum geta þess að á margan hátt er um vel unnið frumvarp að ræða. Það byggir á ítarlegri vinnu. Þar með tek ég ekki undir allar þær niðurstöður sem þar er að finna. Ég hygg hins vegar að þarna liggi mikil vinna að baki og engin ástæða til að gera lítið úr því.

Varðandi málið almennt þá kemur fram hjá hæstv. forsætisráðherra núna eins og á síðasta þingi að markmiðið sé að stefna í þá átt að auka upplýsingarétt almennings og auka aðgang bæði fjölmiðla og almennra borgara að upplýsingum sem liggja fyrir hjá hinu opinbera og er það vel.

Ég hélt því fram á síðasta þingi og geri það enn að þótt ákveðin ákvæði frumvarpsins stefni vissulega í þessa átt þá á það ekki við um þau öll. Ég lýsti á síðasta þingi áhyggjum mínum af því sérstaklega að ákvæði frumvarpsins sem varða vinnugögn og þess háttar, eiginlega fyrst og fremst þau ákvæði sem er að finna í 6. og 8. gr. frumvarpsins, gætu falið í sér hættu á þrengingu á upplýsingarétti almennings. Mér sýnist í fljótu bragði að sú skoðun mín eigi enn rétt á sér, þ.e. að unnt verði að fella mjög margt undir vinnugögn sem halda ber trúnað um, sem hægt er að fá fram miðað við ákvæði núverandi upplýsingalaga. Um þetta var töluvert fjallað í allsherjarnefnd í fyrra og ég get alla vega getið þess að margir umsagnaraðilar mátu þetta með svipuðum hætti og ég þótt vissulega væri uppi ágreiningur um túlkun að þessu leyti á 6. og 8. gr. Aðrir gerðu athugasemdir við önnur ákvæði en þetta var atriði sem ég mundi vilja halda til haga og tel enn að þurfi að skoða þótt að einhverju leyti sé búið að breyta þessum ákvæðum. Mér sýnist t.d. að það sé tryggt, ef frumvarpið nær fram að ganga eins og það er, að gögn sem notuð eru við undirbúning lagafrumvarpa komi fram á þingi þegar frumvörp eru lögð fram og verði þar með opinber, sem er gott, en engu að síður hef ég áhyggjur af því, skulum við segja, að 6. og 8. gr. feli enn í sér of mikla möguleika til takmörkunar á aðgangi að upplýsingum miðað við það sem eðlilegt mætti teljast. Ég hef áhyggjur af þessu og óska eftir því við þá nefnd sem fær málið til meðferðar að þetta atriði verði skoðað sérstaklega.

Ég vísa að öðru leyti til þeirra nefndarálita sem lágu fyrir í fyrra. Það var bæði um að ræða nefndarálit frá meiri hluta og minni hluta og í báðum tilvikum komu fram athugasemdir og breytingartillögur, í sumum tilvikum mjög veigamiklar athugasemdir, og þótt að einhverju leyti hafi verið komið til móts við ákveðin atriði í þessum álitum sýnist mér enn vanta töluvert upp á að frumvarpið sé fært til samræmis við þau sjónarmið sem þá komu fram og er nauðsynlegt að fái viðeigandi umfjöllun og umræður í þeim nefndum sem um er að ræða. Ég ætla ekki að fara nánar ofan í það að sinni enda er þetta mál þess eðlis að það þarf fyrst og fremst að fá umfjöllun og eftir atvikum þroskast í nefnd áður en það er tekið til frekari umfjöllunar.

Ég verð, hæstv. forseti, að vekja athygli á niðurlagi umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins varðandi þetta frumvarp. Þar velta menn fyrir sér kostnaði við gildistöku frumvarpsins og er margt óljóst í því sambandi. Ég vildi vekja athygli á því sem segir í niðurlagi umsagnar fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytis, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að stjórnvöld og þeir sem lögin taka til beri annan kostnað af framkvæmd þeirra. Engin spá hefur verið gerð um það við hverju megi búast í þeim efnum og engin áætlun liggur fyrir um aukinn kostnað stjórnvalda af lögfestingu frumvarpsins enda skortir forsendur til þess. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af þessum verkefnum verði látinn rúmast innan fjárhagsramma fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps.“

Þetta, hæstv. forseti, finnst mér kalla á ákveðnar spurningar. Ég ætlast ekki til þess að hæstv. forsætisráðherra svari þessu í dag. Ég vek bara athygli á því sem sagt er um að forsendur vanti til að meta hvaða kostnaður muni hljótast af lögfestingu þessa frumvarps og legg áherslu á að sá þáttur verði skoðaður með viðeigandi hætti í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar.