140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á ólympíuleikum fatlaðra.

297. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst og fremst vil ég segja að það er hárrétt hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að það var ekkert aukaframlag á þessum tíma. Ég held að við eigum núna að horfa til framtíðar. Það þarf að koma til árlegt framlag, burt séð frá því hversu hátt það nákvæmlega er, sem tryggir í raun og veru að staðið sé að undirbúningi fyrir Ólympíuleika. Eins og komið hefur fram hér í öllum þessum umræðum um íþróttamál þá verða afreksmenn ekki til á einum degi og miklu skiptir að uppbyggingarstarf sé stöðugt þannig að ég get tekið undir það með hv. þingmanni.

Ég vil minna á íþróttastefnuna sem ég hef nefnt aðeins hér. Í henni er ekki sérstaklega rætt um íþróttir fatlaðra því að hugmyndin er einmitt sú að stefnan eigi að gilda jafnt um fatlaða sem ófatlaða. Hins vegar þarf að hafa í huga eins og hér hefur verið nefnt að hugsanlegu eru aðrar þarfir til staðar í íþróttum fatlaðra og afreksstarfið kostar kannski meira að þessu leyti, til að mynda hvað varðar þátttökuna.

Ég held hins vegar að við eigum mikla möguleika og Íþróttasamband fatlaðra hefur sýnt í verki að það hefur mikinn metnað í þessum málum. Sá mikli metnaður sem sambandið hefur sýnt er nokkuð sem ég held að við getum öll verið þakklát fyrir. Ég held því að það séu líka miklir möguleikar og tækifæri fram undan.