140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

mælingar á dilkakjöti og beitarrannsóknir í Skutulsfirði.

447. mál
[17:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Aldrei ræðum við of oft um eftirlitsiðnaðinn sem var lögleiddur hér um leið og EES-samningurinn samkvæmt uppskrift Evrópusambandsins og hefur brugðist okkur Íslendingum í einu og öllu.

Það kom fram í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ríkið væri ekki bótaskylt vegna þeirrar mengunar sem átti sér stað þarna fyrir vestan. Ég verð að viðurkenna að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra virðist ekki vera vel að sér í skaðabótareglum íslenska ríkisins, hvorki í þessu máli né öðru, vegna þess að Umhverfisstofnun átti að hafa eftirlit með sorpbrennslunni og var þar að auki búin að veita undanþáguákvæði á brennsluna til að starfa. Ríkisstofnunin Umhverfisstofnun sem starfar samkvæmt lögum frá Alþingi ber að sjálfsögðu þarna ábyrgð.

Ég kalla eftir því að einhverjir einstaklingar innan stofnunarinnar verði annaðhvort færðir til í starfi eða þeim hreinlega gert að víkja (Forseti hringir.) því að þarna er Umhverfisstofnun sem ríkisstofnun klárlega búin að baka sér mikla skaðabótaskyldu fyrir íslenska ríkið.