140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Allir eru sammála um að fjárfesting í íslensku atvinnulífi er eitthvert brýnasta verkefni sem við þurfum að koma í gang til að hér fari af stað alvöruefnahagsbati. Mig langar að draga stuttlega upp þá alvarlegu mynd sem við stöndum frammi fyrir í því máli.

Í dag er staðan þannig að sjávarútvegurinn sem hefur haldið hjólunum gangandi í íslensku samfélagi á undanförnum árum horfir upp á lækkun á verðum á mörkuðum. Það eru miklar breytingar að verða á helstu markaðssvæðum okkar og mjög alvarlegir hlutir að gerast. Birgðir hjá kaupendum okkar eru að dragast mjög saman, birgðir eru að aukast hér á landi á móti. Þetta er að gerast á helstu saltfiskmörkuðum okkar og reyndar miklu víðar. Á sama tíma og þessi alvarlega staða blasir við sjávarútveginum og þær hugsanlegu breytingar sem því fylgja, ætlar hæstv. ríkisstjórn að leggja stórauknar álögur á sjávarútveginn á hausti komanda þegar fara á með veiðigjaldið upp í 9,1 milljarð. Þetta þýðir einfaldlega, virðulegi forseti, að sú fjárfesting sem við höfum beðið eftir í sjávarútvegi fer ekki af stað.

Á sama tíma er nauðsynlegt til að hér verði alvöruefnahagsbati að komið verði af stað fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Þar stöndum við frammi fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki einhuga varðandi rammaáætlun og nú eru að verða tafir á því að rammaáætlun verði lögð fram í þinginu. Taka hefði þurft ákvarðanir á þessum vettvangi á síðasta ári til að þeirra hefði gætt í efnahagslífinu á þessu ári. Það gerðist ekki og í raun afgreiddu Vinstri grænir það mál á fundi sínum síðastliðið haust þar sem þeir buðu ekki upp á neina málamiðlun í þessum efnum.

Nú er að kristallast, virðulegi forseti, að síðastliðin þrjú ár hafa verið ár hinna glötuðu tækifæra að þessu leyti. Sjávarútvegi hefur verið haldið algerlega í kreppu, engin fjárfesting verið í greininni svo munar um og hið sama hefur átt við um orkufrekan iðnað. Nú stöndum við frammi fyrir því að miklar breytingar eru að verða í helstu viðskiptalöndum okkar, (Forseti hringir.) þar þrengir að. Ástandið er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, miklu alvarlegra en ég held að margir geri sér grein fyrir og við þetta verður ekki búið lengur.