140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Hann kom með fleiri rök sem spila inn í, þetta er auðvitað atvinnuskapandi líka og ég efast ekkert um það. Ég er heldur ekki að gera lítið úr þeim undirbúningi sem hefur farið fram og ég er ekki að gagnrýna neinn, ekki Vegagerðina, engan. Það sem ég er einfaldlega að segja er að þegar menn skoða áhættumestu vegarkaflana og fara yfir þá, þá veldur það manni vonbrigðum og olli mér miklum vonbrigðum að sjá líka nýja vegi í áætluninni.

Tíu áhættumestu vegarkaflar landsins liggja víða, á Reykjanesi, á Vestfjörðum — búið er að laga hættulegasta vegarkaflann, hann var í Brú í Hrútafirði og það er mjög gott. En það er mikið af nýjum vegum í áætluninn og það olli mér mestum vonbrigðum. Það sem ég er að segja er þetta: Getum við náð sátt um að nota þessa aðferðafræði? Það er búið að fjárfesta í að taka þessi vegi út og þessi aðferðafræði er þrautreynd úti um allan heim. Þegar talið er frá hættulegasta veginum og niður eigum við þarna 264 vegi á lista. Getum við náð saman um að ætla okkur á næstu þrem árum eða fimm árum að taka 30 eða 50 hættulegustu vegarkaflana og laga þá? Það er í raun það sem ég er að kanna hvort hæstv. ráðherra sé tilbúinn til að beita sér fyrir.