140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

öryggismál sjómanna.

[10:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta mál er búið að liggja í ráðuneytinu síðan 2004, frá ráðgefandi aðila um öryggismál sjómanna. Ég skil hins vegar að hæstv. ráðherra geti ekki svarað þessu afdráttarlaust öðruvísi en að fara yfir málið og þar sem ég veit að hæstv. ráðherra er vanur að standa við það sem hann segir mun hann gera það fljótt og vel. Ég treysti á að hann komi þessu í verk þar sem málið er búið að bíða í ráðuneytinu í um átta ár. Ekki er deilt um hvaða þýðingu björgunarflotbúningar hafa fyrir öryggi sjómanna vegna þess að það er margsannað að þeir bjarga lífum sjómanna.

Það er mikilvægt að þessi reglugerð verði komin í gildi áður en strandveiðarnar byrja 1. maí þannig að menn hafi ákveðinn tíma og fyrirvara til að geta komið því í verk. Því hvet ég hæstv. innanríkisráðherra til að greina mér frá því fyrr en síðar hvað hann hyggst gera í þessu máli.