140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þessi skýrsla hefur litið dagsins ljóst. Það er ákveðin framvinda komin í þetta mikilvæga mál. Það er gott að sjá hversu öflug umræðan er í dag og hversu sammála menn eru um að þetta sé verkefni sem við ættum að horfa til og reyna að byggja upp nýtt kerfi þannig að orkuskipti verði í samgöngum á Íslandi.

Staðan okkar á Íslandi er auðvitað öfundsverð. Við eigum fjölmörg tækifæri. Við búum á lítilli og afmarkaðri eyju og höfum mikla endurnýjanlega orku í landinu, þess vegna er fljótlegast að álykta að rafmagnið komi til með að henta okkur best, en ég er ekki sérfræðingur í því og get ekki sagt til um hvaða leið verður valin, einkaaðilarnir og markaðurinn munu ráða því. En vissulega er fjölmargt í gangi.

Við þekkjum öll þær rannsóknir sem þegar eru í gangi varðandi metanið, margir þingmenn hafa komið inn á það í dag. Jafnframt er vert að minna á repjuna sem er tilraunaverkefni sem hefur gengið vel og fór upphaflega af stað með það að markmiði að lífdísill mundi knýja skipaflotann. Farið er ágætlega yfir það í skýrslunni, sérstaklega varðandi skipaflotann í kafla 3.6. Niðurstaðan er að nauðsynlegt sé að undirbúa sem fyrst og af kostgæfni notkun lífdísils á aðalvélar íslenskra skipa með hagkvæmni og umhverfislegan ávinning að leiðarljósi. Þetta er því hérna allt saman og gott að sjá það enda hefur það verkefni gengið vel og verður mjög spennandi að fylgjast með því.

Við erum að leggja af stað í langferð. Þeim 200 þús. ökutækjum sem við Íslendingar eigum verður ekki skipt út á einu bretti. Fjárfestingin er, miðað við þessa skýrslu, 500–600 milljarðar kr., þannig að gert er ráð fyrir því að þetta taki tvo til þrjá áratugi. Engu að síður er gott að við séum komin af stað. Við vitum öll að langferðir hefjast á einu skrefi.

Hvert er aðalmálið sem kemur upp í huga neytandans sem velur sér bifreið eða ökutæki? Hvað hugsar hann um? Jú, það er gott að vera umhverfisvænn og allt það, en það sem venjulegur neytandi hugsar að sjálfsögðu um er buddan. Hvernig kemur þetta út fjárhagslega? Það er sá kafli í málinu öllu sem mér finnst áhugaverðastur og sem við ættum að velta fyrir okkur. Það er fjallað um ívilnanir í skattkerfinu í kafla 5.2 í skýrslunni. Ég hvet áhugamenn til að kynna sér þann kafla. Þar kemur fram, og ég heyrði að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir minntist á það, að ekki eigi að endurskoða ívilnanir fyrr en 2020. Ég skil þetta þannig að ekki standi til að endurskoða þær ívilnanir sem þegar eru komnar inn. Ég tel því að þetta sé ágæt tillaga, vegna þess að auðvitað þarf að vera ákveðið öryggi í þessu umhverfi, að menn viti hvernig hlutirnir verða nokkur ár fram í tímann, vegna þess að það er stór fjárfesting fyrir flest öll íslensk heimili að kaupa bifreið.

Þó að það sé ágætt að lækka skatta á reiðhjól dugar það afskaplega skammt fyrir þá sem búa úti á landi og þurfa að komast til Reykjavíkur og geta, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, ekki keypt sér metan á bílinn. Það er því auðvitað mikið eftir. Innviðirnir eru allir eftir, en það má ekki verða þannig að landsbyggðin sitji eftir, vegna þess að þá horfum við ekki á heildarmyndina og samgöngur frá landsbyggðinni eru miklar. Það þarf að horfa á alla myndina.

Annars líst mér ágætlega á þær tillögur um ívilnanir í skattkerfinu sem koma (Forseti hringir.) fram í þessum kafla og hvet áhugamenn um efnið til að kynna sér skýrsluna í heild. (Forseti hringir.)