140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

frumbyggjaveiðar á hval.

454. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni og fagna því að nú liggur skýrt fyrir að það er afstaða íslenskra stjórnvalda að frumbyggjaveiðarnar haldi áfram. Þá verðum við að athuga að það er ekki bara skilgreining þeirra eða úthlutun kvótans sem þar skiptir máli, heldur líka það að þær hafa verið teknar út fyrir sviga í umræðunni um það hvort hvalvernd eigi að ríkja á höfunum, að hve miklu leyti, og þegar hvalveiðibannið var héldu frumbyggjaveiðarnar áfram. Samkomulagið hefur því ekki aðeins verið um það hvort frumbyggjar skuli fá að stunda veiðar sínar heldur að þeir skuli fá að stunda veiðarnar áfram hvað sem líður veiðum iðnríkjanna. Það er það sem skiptir hér máli.

Ég fagna því að sú stefna liggur ljós fyrir af hendi núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Það er auðvitað skilgreiningarmál hvort Íslendingar hafi einhvern tímann stundað frumbyggjaveiðar. Ljóst er að þær veiðar sem nú eru stundaðar, hvort sem er á stórhveli eða á hrefnu, eru ekki frumbyggjaveiðar í neinum eiginlegum skilningi þess orðs.

Hins vegar verð ég að segja það í svipuðum dúr og hæstv. ráðherra sagði áðan að þegar málið var til umræðu á sínum tíma var ég nokkuð hallur undir sjónarmið Skúla Alexanderssonar, fyrrverandi þingmanns, að íslensk stjórnvöld og Íslendingar ættu að gera skýran mun á stórhvalaveiðum annars vegar, sem eru klárar iðnvæddar veiðar sem hófust hér eftir síðari heimsstyrjöld, og hins vegar hrefnuveiðunum, sem voru þá staðbundnar veiðar en eru það ekki lengur, sem studdust við hefð sem nær aftur á 19. öld, þótt það sé ekki aldalöng reynsla. Við lærðum handtökin af Norðmönnunum sem komu hér að veiða hval og síld á sínum tíma og höfum alla vega stundað þær síðan. Það var ekki gert, því miður, og það er staðreyndin eins og hún er núna. Þessar veiðar hins vegar hafa aldrei verið nálægt því að geta kallast frumbyggjaveiðar (Forseti hringir.) eins og þær veiðar sem ég rakti áðan.