140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:31]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta eru áhugaverðar sviðsmyndir sem hv. þingmaður dregur hér upp og má velta því fyrir sér hvernig náttúran bregst við þegar hún fær til þess næði. Þetta er enn og aftur til umhugsunar um þá staðreynd að maðurinn getur ekki verið án náttúrunnar en náttúran getur vel verið án mannsins, hún þrífst ágætlega þó að við séum ekki að trufla hana.

Mig langar að biðja hv. þingmann að deila með mér þeirri hugsun að það geti verið að önnur nýting en beinlínis orkuöflun sé hagkvæm og mikilvæg. Ég vil til dæmis nefna, af því að hér hefur verið rætt um þjóðgarða og friðlýst svæði, að eldfjallagarðar, þar sem við erum með kennslustofu um það hvernig jörðin varð til og öll jarðlögin fyrir framan nefið á okkur — hvort það gæti verið hagfelldari nýting á náttúru en að virkja hana til orkuöflunar. Þetta eru vangaveltur sem við verðum að gefa okkur tíma til að skoða.