140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að upplýsa hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, um að það er komið fram þingmál um breytingar á þessum fasteignasköttum þannig að ef sá er hér stendur sem er 1. flutningsmaður á því máli fengi að mæla fyrir því í dag eða á morgun væri hægt að koma því hið snarasta til nefndar þannig að hún gæti tekið málið til umfjöllunar. Málið er sem sagt komið fram og engin ástæða er til að bíða lengur.

Mig langar aðeins að koma inn á stjórnarskrána sem hv. þm. Skúli Helgason nefndi. Ég hef alveg frá því að þetta stjórnlagaráð var kallað saman haft miklar efasemdir um aðferðafræðina við það allt saman. Mér sýnist þær tillögur sem komu frá þessu stjórnlagaráði ekki mjög beysnar. Mér sýnist líka að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé í mestu vandræðum með þetta mál. Eftir því sem mér skilst hafa flestir þeir sem hafa komið fyrir nefndina gert miklar athugasemdir við tillögurnar, hvernig málið er lagt fram og allan þann pakka.

Ég hlýt að spyrja: Um hvað í ósköpunum á að kjósa með forsetakosningunum? Er ekki hægt að nota þær kosningar líka til að kjósa um til dæmis hvort við eigum að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið fyrst farið er að kjósa svona dittinn og dattinn? Á að kjósa um allar 110 tillögurnar eða hvað það var eða kjósa um eina tillögu? Ég held að hafi verið mjög misráðið, í rauninni meingallað, að setja þetta í þennan farveg. Það er ekki brýnasta málið eftir hrun að breyta stjórnarskránni. Hrunið varð ekki til út af stjórnarskránni, það er einfaldlega þannig, en við eigum hins vegar að vera óhrædd við að endurskoða stjórnarskrána. Þar vil ég nefna auðlindakaflann, mannréttindakaflann úr því að þau mál voru nefnd hér og eins þann sem snýr að dómstólum.

Ég velti hins vegar fyrir mér af hverju í ósköpunum ekki hafi verið reynt að ná samstöðu meðal þingmanna um að skoða, þá kannski út frá þessum tillögum, til dæmis einn hluta þeirra tillagna sem snúa að auðlindunum eða mannréttindakaflanum. Af hverju hafa stjórnarflokkarnir ekki rétt fram höndina og sagt: Tökum höndum saman (Forseti hringir.) úr því að málið er í þessum skrýtna farvegi og einblínum á þennan kafla? Ég hugsa að það hefði verið hægt að ná (Forseti hringir.) þokkalegri sátt um að gera eitthvað slíkt.