140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:24]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um trúfélög. Ýmsar spurningar vakna varðandi þetta frumvarp og eins og ég skil það er verið að heimila skráningu á félögum sem geta ekki talist trúfélög heldur eru svokölluð lífsskoðunarfélög. Það er gert til að skapa jafnræði með trúfélögum annars vegar og lífsskoðunarfélögum hins vegar. Þá skapast grundvöllur fyrir lífsskoðunarfélög, sem eru að ég held flest frekar ný af nálinni, að fá svokölluð sóknargjöld eins og trúfélög fá í dag og þau verða að lúta ákveðnum skilyrðum til að fá þann rétt, m.a. að sjá um ýmsar félagslegar athafnir eins og það er orðað í greinargerðinni.

Þá vakna ýmsar spurningar. Í greinargerðinni er sagt að með frumvarpinu sé tekið á tveimur þáttum. Annars vegar er verið að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og jafna þannig stöðu umræddra félaga á öllum sviðum samfélagsins. Vísað er í að allir einstaklingar skuli vera jafnir að lögum óháð trúar- eða lífsskoðunum og í greinargerðinni er meðal annars vísað til 63. gr. og 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það er jákvæð hugsun í þessu að mínu mati. Hér stendur líka að við skráningu hljóti lífsskoðunarfélögin þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum. Þessi réttindi eru þá væntanlega að fá sóknargjöld og rétt til að framkvæma ýmsar athafnir, giftingar, skírnir, fermingar o.s.frv. en þau hafa líka ákveðnum skyldum að gegna. Til að fá skráningu þurfa þau að sanna að þau séu stofnuð í ákveðnum góðum tilgangi og þar er meðal annars notast við orðið mannrækt í því sambandi. Þetta er sem sagt annar tilgangurinn með frumvarpinu.

Hinn tilgangurinn er sá að barn sé ekki við fæðingu sjálfkrafa skráð í sama trúfélag og móðir þess heldur á að tryggja jafnrétti foreldra barns til að ákveða í hvaða trúfélag eða lífsskoðunarfélag barnið skuli skráð, hvaða félagi það skuli tilheyra þannig að það er ekki bara móðirin sem hefur þann allsherjarrétt, ef svo má að orði komast, því er breytt í frumvarpinu.

Mig langar að stikla á stóru um frumvarpið en áður en ég geri það vil ég koma því á framfæri að Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um málefni tengd þessu. Í ályktun flokksþings framsóknarmanna er sérstaklega ályktað um trúmál, á bls. 13. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Þjóðin þekkir rætur sínar, menningararf og þau siðrænu gildi sem hún hefur byggt samfélag sitt á um aldir. Þessi siðrænu gildi eru að miklu leyti sprottin úr kristnum jarðvegi, enda hefur kristin kirkja haft mótandi áhrif á menningu þjóðarinnar undanfarin þúsund ár. Við viljum að áfram verði stutt við öflugt starf þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.“

Hérna er talað um öflugt starf þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Það er ekki sérstaklega tekið á lífsskoðunarfélögum en þetta er sú ályktun sem Framsóknarflokkurinn samþykkti. Síðan hafa ungir framsóknarmenn einnig ályktað um þessi mál og það var gert nú um helgina á Egilsstöðum á sambandsþingi ungra framsóknarmanna þannig að þetta er glóðvolg ályktun. Ég ætla að vitna í ályktun þeirra um trúmál og trúfrelsi, og hún hljóðar svo, virðulegur forseti:

„Ungt framsóknarfólk vill stuðla að því að trúfrelsi sé virt á Íslandi og stuðla að vettvangi samráðs og jafnréttis meðal ólíkra trúarbragða auk þess sem réttur þeirra sem standa utan skráðra trúfélaga skal vera hafður í heiðri. Rétt er að breyta lögum um sjálfgefna skráningu barns í trúfélag móður við fæðingu þannig að samþykki beggja forsjáraðila, séu þeir tveir, þurfi til að skrá barn í trúfélag hafi það ekki aldur til að sjá um skráningu sína sjálft.“

Hérna taka ungir framsóknarmenn líka á rétti þeirra sem standa utan skráðra trúfélaga, að hafa skuli hann í heiðri. Ég vil túlka það sem svo að þarna sé líka átt við rétt þeirra sem vilja vera í lífsskoðunarfélagi sem er ekki beinlínis trúfélag. Ungir framsóknarmenn taka líka þá afstöðu að barn sé ekki skráð sjálfkrafa í trúfélag móður heldur ákveði báðir foreldrar það.

Varðandi síðastnefnda atriðið sé ég ástæðu til að spyrja hæstv. innanríkisráðherra aðeins út í það en ég býst við að hann komi aftur hingað upp í lok umræðunnar. Ég skil þetta svo að foreldrarnir eigi að taka á því máli eða forsjáraðili en ég sá ekki við fljótan yfirlestur hvað gert yrði ef sú staða kæmi upp, sem er alveg hugsanleg, kannski ekki líkleg en hugsanleg, að foreldrar væru ósammála um í hvaða trúfélag eða lífsskoðunarfélag ætti að skrá barnið í ef þeir eru ekki í sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Ég sá það ekki við fljótan yfirlestur, en hugsunin er góð. Þetta er jafnréttishugsun, báðum foreldrum er gefinn jafn réttur til að sjá um þessi mál og hafa áhrif á það í hvaða trúfélag eða lífsskoðunarfélag barnið er skráð.

Síðan er það spurningin: Hvað er lífsskoðunarfélag? Ég sé að hæstv. innanríkisráðherra og ráðuneyti reyna að skilgreina það hér og þetta er auðvitað kjarni málsins á vissan hátt. Hvað er lífsskoðunarfélag? Við viljum helst ekki að lögin séu þannig að hvaða samkoma og hvaða hópur sem er geti skráð sig sem lífsskoðunarfélag og fengið þar með sjálfkrafa sóknargjöld sem eru 701 kr. á mánuði á hvern einstakling yfir 16 ára aldri sem skráður er í félagið. Það væri ekki góð þróun. Hlutverk félagsins þarf að vera skilgreint á einhvern hátt og það þarf að vera eitthvað á bak við það.

Í 4. gr. er reynt að taka á þessu og sagt að það verði að vera um félag að ræða sem byggist á siðferði og lífsskoðunum óháð trúarsetningum og tengja má við þekkt hugmyndakerfi í heimspeki og siðfræði. Það má ekki bara vera hvað sem er. Þá er jafnframt skilyrði fyrir skráningu að um sé að ræða lífsskoðunarfélag sem miðar starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt og á sér sögulegar eða menningarlegar rætur og fjallar um siðfræði og þekkingarfræði með ákveðnum og skilgreindum hætti. Ég staldra svolítið við orðin mannrækt og siðferðisgildi. Hvað er það? Hvar liggja mörkin þar og hvað er mannrækt? Þetta er allt svolítið óskilgreint en líklega er mjög erfitt að skilgreina þetta nákvæmlega þannig að ég hef tilhneigingu til að reyna að líta á þetta jákvæðum augum og trúa því og treysta að hér sé um að ræða félög með jákvæðan tilgang, jákvæða nálgun, enda segir hér líka að þau eiga að hafa náð fótfestu, starfsemi þeirra á að vera virk og stöðug og tilgangur þeirra má ekki stríða gegn lögum — þó það nú væri — góðu siðferði eða allsherjarreglu. Ég held að þessi allsherjarregla sé mikilvæg. Það er kannski ekki við hæfi að nefna það í sömu andrá og við tölum um þessi mál en hér hafa hópar náð fótfestu sem má alveg færa rök fyrir því að vinni ekki beinlínis að því að halda uppi allsherjarreglu, hópar sem menn geta flokkað undir glæpasamtök og sem núna er meira og minna í Evrópu farið að flokka sem glæpasamtök. Hér er sem sagt um önnur félög að ræða. Þetta eiga í eðli sínu að vera jákvæð félög sem stuðla að mannrækt, vilja halda uppi góðu siðferði, stríða ekki gegn lögum né allsherjarreglu o.s.frv., þannig að þetta eru jákvæð skilyrði.

Varðandi fleiri atriði sem þessi félög eiga að sinna er sett skilyrði um að félagið sjái um tilteknar athafnir, sem eru nefndar hér, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafnagjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir. Því er þó komið á framfæri í greinargerð að þessi félög þurfi ekki að sjá um þetta allt saman en að minnsta kosti eitthvað af þessu, t.d. bara fermingar eða eitthvað slíkt.

Svo er það ákvæðið sem einmitt var fjallað um í andsvörum rétt áðan, virðulegur forseti. Það er að ráðherra sé heimilt að ákveða með reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögum þessum. Ég heyrði að hæstv. ráðherra var að velta þessu fyrir sér og hvort það ættu að vera ekki færri en 25 manns í félagi. Það finnst mér vera mjög lág tala, afar lág. Í Noregi er talan lögbundin og er 500 manns. Noregur er miklu fjölmennara samfélag en okkar en þeir ákváðu að setja í lögin ákveðna tölu og það er spurning hvort við skoðum það í allsherjar- og menntamálanefnd, hvort við viljum setja ákveðna tölu í lögin eða beina þessu til ráðherra með reglugerðarheimild.

Það segir í greinargerðinni að nokkur nágrannaríki hafi breytt lögunum á þann hátt sem hæstv. ráðherra leggur hér til, en síðan er bara Noregur tilgreindur. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra kæmi inn á það í lokin hvaða nágrannaríki það eru sem hafa breytt lögum í þá veru að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við stöðu trúfélaga. Varla er það bara Noregur af því að þetta er haft í fleirtölu í greinargerðinni. Það væri áhugavert að heyra hvað hæstv. ráðherra segir um það. En Norðmenn hafa sem sagt opnað á þetta og greiða sóknargjöld til lífsskoðunarfélaga með ákveðnum skilyrðum og ef þau hafa fleiri en 500 manns á félagaskrá.

Síðan er ákvæði sem ég býst við að sé hér inni til að sóknargjöld verði ekki tvígreidd. Það má ekki samtímis tilheyra þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi. Maður má bara vera í einu félagi, væntanlega til að ríkið tvígreiði ekki sóknargjöld.

Það saxast verulega á tíma minn en ég vil að endingu koma inn á sóknargjöldin. Hæstv. ráðherra sagði að ekki stæði til að skerða sóknargjöld til trúfélaga þó að ný lífsskoðunarfélög yrðu skráð og fengju þar af leiðandi sóknargjöld, en ég get ekki skilið umsögn fjármálaráðuneytisins öðruvísi en að svo verði. Í lok umsagnar fjármálaráðuneytisins stendur, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið lögfest má telja líkur á að einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með fjölgi um fleiri hundruð og hugsanlega þúsundir til lengri tíma litið.“ — Sem sagt, ef ný félög verða til greiðir ríkissjóður hærri upphæð í sóknargjöld. — „Gera verður ráð fyrir að brugðist yrði við því með því að lækka á móti einingarverð sóknargjalda fyrir hvern einstakling þannig að útgjöldin haldist innan þess ramma sem innanríkisráðuneytinu er markaður í ríkisfjármálaáætlun gildandi fjárlaga.“

Þarna er reyndar bara sagt „gildandi fjárlaga“. En það er í raun verið að segja: Það koma ekki meiri peningar, búið er að setja rammann varðandi fjárlögin. Ef fleiri félög verða skráð og fleiri meðlimir eiga að fá greidd sóknargjöld verður einingarverð sóknargjalda fyrir hvern einstakling lækkað á móti svo að útgjöldin haldist innan ramma. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti skýrt þetta aðeins betur. Það er líka svolítið leiðinlegt að setja félögin í þessa samkeppnisstöðu, ef svo má segja. Það væri betra ef opnað væri fyrir það að þau nýju félög, sem væntanlega verða skráð ef þetta frumvarp verður samþykkt, fengju bara sóknargjöldin og ekki yrði klipið af núverandi trúfélögum.