140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Dagurinn í gær var að mörgu leyti ánægjulegur fyrir þá sem í hlut eiga, þ.e. skuldara sem eru að fá leiðréttingar mála sinna með dómi Hæstaréttar. Þetta var ágætur dagur. Dagurinn í dag virðist hins vegar vera ágætur að öðru leyti, þ.e. þetta virðist vera dagur þar sem lýðskrumararnir ná að skjóta rótum að nýju eins og heyra mátti á ræðu á undan, hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem á sínum tíma, við afgreiðslu þeirra laga sem um er að ræða, í desember 2010, studdi málið ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar heldur hverja einustu breytingartillögu sem gerð var á málinu að frumkvæði meiri hluta þingsins. Við hverja einustu atkvæðagreiðslu var græni takkinn kveiktur á því borði sem hún sat við. Nú vilja menn afsala sér ábyrgð á því, gott og vel, það er sú leið sem þingmenn kjósa sér að fara hverju sinni.

Um hvað snýst þetta mál í grunninn, virðulegi forseti? Um það að við erum að fást við fjármálakerfi sem hér var skapað á sínum tíma sem var ekki bara vont og leiddi ekki bara til ills, var heimilum, fyrirtækjum og samfélaginu öllu til mikils tjóns — heldur var ólöglegt. Við þurfum að glíma við afleiðingar af fjármálakerfi sem var dæmt ólöglegt af Hæstarétti Íslands sumarið 2010. Um það snýst þetta mál í grunninn og um það hafa viðbrögð stjórnvalda við dómi Hæstaréttar 2010 snúist og síðan við dómnum haustið 2011. Öll viðbrögð stjórnvalda hafa miðast að því að bregðast við þeirri staðreynd að þessi hluti fjármálakerfisins, lánastarfseminnar, bankastarfseminnar, var ólöglegur, hann stóðst ekki mál, hrundi til grunna með dómi Hæstaréttar.

Með lögunum 2010 var gripið til ráðstafana sem höfðu heilmiklar afleiðingar. Á grundvelli þeirrar lagasetningar sem sumir vilja ekki kannast við í dag, einhverjir kannast í það minnsta ekki við að hafa stutt þau, var tekin sú afstaða af hálfu þingsins að jafnt skyldi yfir alla ganga og ekki hangið á orðalagi samninga sem voru gengistryggðir, dómurinn yrði látinn fara yfir alla slíka samninga. Á þeim lögum byggjast síðan endurútreikningar fjármálastofnana upp á um 140 milljarða í dag. Það er ekkert víst að það hefði allt saman gengið eftir ef þingið hefði ekki brugðist við og látið dóminn standa einan og sér. Það er vitað mál. Það er enn deilt um það hvort allir þeir samningar sem þar lágu undir hefðu fallið undir dóm Hæstaréttar.

Það eru ýmsir sem studdu ekki málið til enda en voru í prinsippinu sammála þeirri lagasetningu sem var sett 2010. Ég nefni þingmenn Sjálfstæðisflokksins í því efni. Í ræðum þingmanna frá þessum degi, 18. desember 2010, (LMós: Þriðja atkvæðagreiðslan skipti öllu máli.) má finna stuðning sjálfstæðismanna við málið í prinsippinu. Þeir voru sammála því að setja þau lög sem þarna voru sett en sumir vildu reyndar ganga lengra og taka fyrirtækin með inn í. Aðrir voru síðan trúir sinni sannfæringu og vildu verja fjármálafyrirtækin og töluðu mikið um að 99% tíma þingmanna færi í að ræða um skuldara (Forseti hringir.) en aðeins 1% um fjármagnseigendur og greiddu atkvæði með hliðsjón af því.