140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá skýrslu sem hún flutti hér í dag og fyrir þá umræðu sem hefur farið fram. Ég ætla að leyfa mér að leggja nokkur orð í belg um lífeyrissjóðina þó að hér hafi margt spaklegt verið sagt í umræðunum og ekki ástæða til að endurtaka margt af því.

Það er fagnaðarefni og raunar löngu tímabært að fá þá skýrslu um lífeyrissjóðina í hruninu sem er á borðinu og algerlega nauðsynlegt að hafa þessa greinargóðu úttekt til að meta umhverfi sjóðanna, lagarammann og allar forsendur í kringum þessar mikilvægu stofnanir í samfélagi okkar með góðu móti og til að við í þinginu getum endurskoðað lagarammann í kringum lífeyrissjóðina. Það verkefni höfum við beðið með eftir hrunið þangað til við fengjum þessa skýrslu til að byggja þá umræðu á og tillögugerð í framhaldinu.

Fyrirkomulag lífeyrismála í aðalatriðum, þ.e. að við skyldum svo snemma taka ákvörðun um að byggja fyrst og fremst á sjóðasöfnun, er sennilega með því skynsamlegasta sem Íslendingar hafa gert í hagstjórn og að mörgu leyti mjög til fyrirmyndar. En auðvitað er þetta fyrirkomulag ekki gallalaust og þegar við sjáum jafnmikið tjón og raun ber vitni verða í sjóðunum í hruninu er óhjákvæmilegt að fara yfir það með hvaða hætti við getum staðið betur að málum, eins og bætt úr lagarammanum, stefnunni og öðrum slíkum atriðum.

Ein þeirra lykilspurninga sem við þurfum að fást við er spurningin um ávöxtunarkröfuna sem sjóðirnir starfa eftir. Spyrja verður þeirrar einföldu spurningar hvort hún sé raunhæf og hvort of há ávöxtunarkrafa á þetta mikla fjármagn sem við höfum safnað í sjóðunum muni ekki alltaf leiða til þess með reglulegu millibili að kerfið brenni yfir ef menn leiðrétta ekki þá kröfu. Hún er núna 3,5% að lágmarki, 3,5% plús, og þegar litið er til sjóða sem safnað hafa rúmlega 2 milljörðum kr. hljómar 3,5% ávöxtun út af fyrir sig fremur lág prósentutala en heildarfjárhæðin er gríðarlega há, upp á rúma 70 milljarða á ári. Það er nærfellt 5% af landsframleiðslu þessa lands í raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna einna fyrir utan verðbótaþáttinn en skuldbindingar sjóðanna eru verðtryggðar og talsvert af eignunum.

Við erum að fjalla um raunávöxtun og ef verðbólga er þessi eða meiri verður það viðbótarkrafa og álag á allt okkar kerfi. Núverandi krafan er 1% yfir áætluðum langtímahagvexti og full ástæða til að spyrja sig að því hvort ekki sé verið að setja fram óraunhæfar væntingar um ávöxtun til lengri tíma, sérstaklega þegar menn skoða til samanburðar hvaða ávöxtun þeir hafa fengið, t.d. í erlendum ríkisskuldabréfum yfir lengri tímabil eða af fjárfestingum í fremur traustum fyrirtækjum á alþjóðamörkuðum yfir lengri tíma. 3,5% raunávöxtun á svo stórar fjárfestingar yfir svo langan tíma er sannarlega eitt af því sem við þurfum að taka til endurmats því að það er engum til góðs að gera of miklar kröfur um ávöxtun ef ekki eru forsendur fyrir því. Það mun þrýsta á stjórnendur sjóðanna til lengri tíma til að leita í áhættusamari fjárfestingar sem geti fært þeim þann ávinning sem skilar sér almennt ekki í ávöxtun og getur leitt til óhæfilegrar áhættusækni og mikils tjóns eins og varð hér í hruninu.

Við þurfum að fara almennt yfir fjárfestingarheimildir sjóðanna og hvaða fjárfestingarstefna eigi þar að liggja til grundvallar. Það er auðvitað fyrst og fremst nokkuð sem sjóðirnir eiga sjálfir að móta en þingið á líka að hafa skoðun á í ljósi þeirra gríðarlegu verðmæta sem töpuðust með því að ógætilega var farið. Hversu langt á að ganga í að fjárfesta til að mynda í hlutabréfum á markaði, ekki síst í óskráðum félögum? Ég vek athygli á því að leitað var til þingsins um að veita frekari heimildir eftir hrun til að fjárfesta í óskráðum félögum. Ég tel að það hafi verið algerlega rétt afstaða sem við tókum í efnahags- og skattanefnd þingsins þegar það frumvarp kom fram, að það væri hreinlega óráð að auka heimildir lífeyrissjóðanna til slíkra fjárfestinga fyrr en menn væru búnir að fá þessa skýrslu og fara yfir niðurstöður hennar.

Það er líka, vegna þess að Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins bar á góma áðan, umhugsunarefni að hve miklu leyti sjóðurinn á að standa í fjárfestingum í öðru en öruggum hlutum, eins og ríkisskuldabréfum eða sambærilegum fjárfestingum, tryggum fasteignaverðbréfum eða öðru slíku, því að réttindin í honum munu ekki ráðast fyrst og fremst af ávöxtuninni. Ríkissjóður hefur tekið á sig ákveðnar skuldbindingar og eru margir þættir í kringum skuldbindingarnar tengdar Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ógreiddir. Þar er gat í þeirri sjóðasöfnunarhugsun sem við höfum haft. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að fjárlaganefnd þingsins fari mjög vandlega ofan í þá þætti sem snúa að skuldbindingum ríkissjóðs í því sambandi.

Sumir hv. þingmenn hafa í umræðunni kallað eftir því að þessi skýrsla verði ekki látin nægja heldur fari fram sérstök rannsókn á vegum þingsins á starfsemi lífeyrissjóðanna. Ég vil um það segja að ég tel að þingið þurfi að hugsa þá tillögu vel og rökræða hana áður en í slíkt verði ráðist. Við létum rannsóknarnefnd Alþingis gera skýrslu í upphafi til að gera mjög víðtæka úttekt á því hvað hefði farið úrskeiðis í íslensku samfélagi og hvað betur mætti fara. Við fengum gríðarlega umfangsmikið verk frá rannsóknarnefndinni og margvíslegar niðurstöður sem við getum byggt á þegar við endurreisum hér samfélagið. En að skipa síðan sérstakar rannsóknarnefndir yfir hverja stofnun og um hvern þátt í samfélaginu og öll álitaefni sem uppi eru, hvort sem það er Íbúðalánasjóður, sparisjóðirnir, lífeyrissjóðirnir, einstök fjármálafyrirtæki o.s.frv., hlýtur að vekja upp efasemdir um að við séum á réttri leið ef við förum of langt á þeirri braut eða hvort við séum að setja á fót einhvers konar nýtt réttarfar í landinu, rannsóknarnefndarréttarfar sem væri einhvers staðar á milli hinnar pólitísku umræðu sem fer fram í þinginu annars vegar og dómstóla hins vegar. Ég held að það sé ábyrgðarhlutur að láta dæma verk manna í rannsóknarnefndum, það er sannarlega vandmeðfarið mál og ég held að menn eigi ekki hrapa að neinum ályktunum í því efni.

Hitt er ótvírætt að sú nefnd sem vann þessa skýrslu sem hér liggur til grundvallar hafði ekki sömu lagaheimildir og rannsóknarnefnd Alþingis hafði til að kanna þá þætti sem snúa að spillingu. Það er því ákveðinn ágalli að ekki liggi fyrir fjármálatengsl bankanna og þeirra stjórnenda sem fyrir sjóðunum fóru með svipuðum hætti og rannsóknarnefndin birti almenningi til glöggvunar og upplýsingar um fjárhagsleg tengsl bankanna við stjórnmálamenn og tengsl þeirra við fjölmiðla og hvort og að hve miklu leyti það hefði haft (Forseti hringir.) áhrif á ákvarðanir sem stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn tóku í aðdraganda hrunsins. (Forseti hringir.) Það gæti auðvitað verið áhorfsmál hvort það þyrfti ekki líka að liggja fyrir um þá sem fjalla um svo gríðarlega (Forseti hringir.) fjárhagslega hagsmuni almennings sem stjórnendur lífeyrissjóðanna gera.