140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf að beita sig nokkur átaki við að hlusta á þær upplýsingar sem hv. þingmaður veitti hér, að sérstaklega hafi verið spurt eftir þessu atriði sem ég vakti máls á og að ekkert hafi verið hugsað fyrir því af neinni alvöru hvort þeir sem sætu í ráðinu ættu heimangengt og hvaða lágmarksskilyrði væru sett fyrir því hversu margir þyrftu að vera þarna til að tryggja að eitthvert mark væri á þessu takandi.

Þess vegna taldi ég, og tel, að eðlilegast hefði verið að ganga frá þessu með formlegum hætti. Gefið væri út einhvers konar skipunarbréf og ráðið endurvakið með formlegum hætti þannig að það hafi einhverja stöðu, þetta sé ekki gert þannig að menn sjái bara til hverjir verði í bænum þann daginn. En vegna þess að við erum að ræða þjóðaratkvæðagreiðsluna vil ég nota tækifærið og vekja athygli á einu. Ef ganga á til þjóðaratkvæðagreiðslu, ef það er vilji meiri hluta þingsins, þá væri alveg rakið að nota tækifærið og bæta við einum kassa á atkvæðaseðilinn og spyrja þjóðina, úr því að hún er komin til kjörstaðar, úr því að búið er að standa í þessu öllu saman, hvort hún vilji halda áfram með umsóknarferlið að ESB. (VigH: Það er tillaga fyrir þinginu …) (Gripið fram í: Vúhú.) Ef við efnum til þessara kosninga er alveg eins gott að klára þetta í leiðinni og koma okkur þar með úr þeirri hörmungarstöðu sem við erum í núna. Það er engin pólitísk sátt og pólitískt umboð sem einhverju nemur bak við þessa umsókn og það liggur fyrir að ríkisstjórnin er algjörlega klofin í málinu. Það verði þá bara leitað til þjóðarinnar með þetta. Ég get ekki séð að nokkur þeirra sem hefur hér hæst talað (Forseti hringir.) um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna geti staðið gegn slíku. Þetta er svo einfalt, frú forseti, í framkvæmd. (VigH: Rétt.)