140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

vestnorrænt samstarf um meðferð á endurvinnanlegu brotajárni.

198. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar sem felur Alþingi að skora á ríkisstjórnina að láta, í samvinnu við Færeyjar og Grænland, skilgreina sameiginlega hagsmuni landanna með tilliti til meðferðar á endurvinnanlegu brotajárni og gefa Vestnorræna ráðinu skýrslu um hvernig meðferð þess er háttað í löndunum þremur.

Rétt eins og það mál sem hv. þingmaður ræddi um áðan hefur þetta mál verið til meðferðar á þingum Grænlands og Færeyja. Málið er nú komið til meðferðar Alþingis og hefur hv. utanríkismálanefnd fjallað um það.

Tillagan byggist á ályktun nr. 4/2011 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst, en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands að huga að meðferð á endurvinnanlegu brotajárni sem víða er að finna í löndunum þremur.

Hv. utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Ásmundur Einar Daðason og Auður Lilja Erlingsdóttir skrifa undir þá samþykkt.

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Lagt er til að tillagan verði samþykkt óbreytt.