140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

framhaldsskólastig á Vopnafirði.

481. mál
[18:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og tek undir að það getur skipt fjölskyldu og börn gífurlega miklu máli að þurfa ekki að fara allt of snemma að heiman. Ég kynntist því bæði sjálf og svo í gegnum systkini mín hvers konar álag það getur verið að fara að heiman 16 ára í framhaldsnám og búa þar með síðan ein.

Það sem ég velti fyrir mér varðandi þessa umræðu er hvort við séum ekki enn á ný mjög föst inni í okkar kassa. Eitt af því sem ráðherrann talaði um að þyrfti að skoða var hvort ekki ætti að ræða það líka að sveitarfélög tækju í auknum mæli að sér að halda utan um nám alla vega til 18 ára aldurs og framlengja þar með grunnskólann upp í 18 ára aldur. Svipað og Mosfellsbær gerði, sem var með mjög mikið af áhugaverðum tilraunaverkefnum þar sem einmitt er verið að breyta þessum hefðbundnu mörkum, sem talið er að eigi að vera frá 6 eða 7 ára og upp í 15 ára, og kastaði þessu öllu upp í loft (Forseti hringir.) og breytti því. Ég held að við þurfum að gæta okkar mjög að festast ekki um of í því að þetta sé annars vegar ríkið og hins vegar sveitarfélögin, (Forseti hringir.) heldur velta fyrir okkur hvaða verkefni sveitarfélögin gætu tekið og hvaða verkefni ríkið gæti hugsanlega tekið á móti.