140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[15:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er einkennilegt að hv. þingmaður skuli ekki geta svarað þeim fjórum spurningum sem ég bar upp. Hann kemur í staðinn með loftkastala. Það lýsir því að sannfæring hans sé ekki mjög mikil. Þegar hann spyr mig hvort ég vilji ekki hækka skatt á barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi má líka spyrja á móti: Er ekki rétt að við lækkum þennan skatt almennt, bara allan virðisaukaskatt niður í 7% — nema á vondu vörurnar sem hv. þingmaður hefur auðvitað lista yfir, bara að vondar vörur séu í þessu núverandi efra skattþrepi, en allar góðu vörurnar, þær sem venjulegt fólk kaupir, séu í neðra þrepinu? (Gripið fram í.) Verslunarferðir, já, það er rétt, það er töluvert af verslunarferðum. Ég var að leggja fram ásamt nokkrum félögum mínum á þinginu, tíu manns, frumvarp um póstverslun sem einmitt gæti dregið úr verslunarferðum.

Ég held, með fullri virðingu fyrir og fullri samúð með þeim sem fara í verslunarferðir, og ég held að það geti verið ánægjulegt, ég hef ekki stundað það mikið, að það sé ekki það fólk sem á um sárast að binda í samfélaginu. Það er varla það fólk sem síst getur veitt börnum sínum það sem þau þarfnast. Ég held að það sé ekki þannig en þingmaðurinn leiðréttir mig annars.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir upprifjunina, ég held að ef við hefðum fjármagn til að veita barnafólki meira ættum við ekki að gera það með þessum hætti heldur með auknum barnabótum. Það væri sanngjarnara og það væri miklu meira jafnræði í því. Ég tek undir og hef oft sagt að virðisaukaskatturinn sé of hár en með þessu værum við að hygla einmitt hinum efnameiri í hópi barnafjölskyldna.