140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir þessa fyrirspurn.

Ef mig misminnir ekki tel ég víst að við höfum nú þegar samþykkt að fram fari rannsókn á sparisjóðunum og ég man ekki betur en það hafi verið fyrir ekki margt löngu og sú rannsókn sé komin vel á veg. Það má því segja að það sé í eðlilegum farvegi.

Varðandi hina spurninguna sem þingmaðurinn spurði að, um það ferli sem fór í gang hér eftir hrun og hann kallar hina síðari einkavæðingu — ég er honum ekki sammála um að það sé einkavæðing í sama skilningi og sú sem hér er undir því að þar er um að ræða eign sem í raun réttri er ekki í eign ríkisins sem færð er í hendur kröfuhöfum — en ég er honum hjartanlega sammála um að það er full ástæða til að rannsaka það ferli til hlítar. Sú nefnd sem fær þessa tillögu til meðferðar fer þá vel í gegnum það hvort þetta verði ein og sama rannsóknin eða tvær aðskildar nefndir sem skoði bæði þá einkavæðingu sem við ræðum í þessu þingskjali og það ferli sem tók við eftir hrun. Svar mitt er afdráttarlaust já við þeirri spurningu. Ég held að það sé mikilvægt að allt sé uppi á borðum varðandi það sem þar var gert og við fáum glögga mynd af atburðarásinni í því ferli sömuleiðis.