140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að átta sig á því, með það mál sem hér er til umræðu í grunninn, þ.e. ákæruna sem Alþingi ákvað að höfða á hendur fyrrverandi forsætisráðherra, málssóknina, á hvers vegum það mál var í upphafi og á hvers vegum það mál er sem við fjöllum um í dag.

Það var Alþingi sjálft sem haustið 2008 setti lög um rannsóknarnefnd Alþingis, nefnd sem var falið að rannsaka orsök og aðdraganda falls íslensku bankanna, rannsaka það sérstaklega hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða af hálfu stjórnmálamanna í fjármálakerfinu og sérstaklega um ábyrgð ráðherra sem segir í lögunum að skuli fara með samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Þetta var það hlutverk sem Alþingi fól rannsóknarnefnd, sem þingið sjálft skipaði á sínum tíma til að hefja þetta mál.

Í kjölfarið á því að rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni í níu tölusettum bindum tók við sérstök þingmannanefnd, kennd við Atla Gíslason á sínum tíma, og hún komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að ákæra fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir ýmis afglöp í störfum sínum. Það var síðan Alþingi sem ákvað að ákæra einn ráðherra. Það var engin tilviljun, það átti ekki að koma nokkrum manni á óvart.

Í nefndaráliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir, með leyfi forseta:

„Þegar greidd voru atkvæði um ákæru á hendur Geir H. Haarde máttu þingmenn almennt búast við því að sambærileg niðurstaða yrði í atkvæðagreiðslum um ákærur á hendur hinum ráðherrunum þremur.“

Hvar kemur það fram að þingmenn hafi almennt mátt búast við því að sambærileg niðurstaða yrði í öðrum atkvæðagreiðslum? Var formaður þingmannanefndarinnar þeirrar skoðunar? Nei, hann var það ekki. Formaður þingmannanefndarinnar sagði, svo að vitnað sé í fjölmiðlaviðtal við hv. þm. Atla Gíslason, með leyfi forseta:

„Ég hugsaði einhvern tíma með sjálfum mér: Fjórir, enginn eða einn. Það er algengt í sakamálum að aðalmaður sé ákærður en aðrir ekki, án þess að ég vilji heimfæra það beint yfir á þetta.“

Þetta var skoðun formanns þingmannanefndarinnar sem lagði til að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir. Hvað kemur til að sjálfstæðismenn í minni hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segja nú að þingmenn hafi almennt mátt búast við því að sambærileg niðurstaða yrði í öllum atkvæðagreiðslum? Hvers konar rugl er þetta, virðulegi forseti? Það er engin leið að ætla að slíkt yrði. Vel var farið yfir þessi mál í þingflokki Vinstri grænna á þeim tíma, þar sem formaður þingmannanefndarinnar sat þá, og útskýrt sérstaklega að málið gæti farið á hvern veginn sem er, rétt eins og þingmaðurinn vísaði síðan sjálfur í í fjölmiðlaviðtali.

En á hvers vegum er þetta mál hér í dag? Er það á vegum þingsins? Nei, það er ekki þingið sem er að vekja þetta mál upp í dag. Er það á vegum saksóknara? Hefur hann komið og óskað eftir því við þingið að kalla málið til baka? Hefur saksóknari sem þingið sjálft kaus gert sér ferð niður á Austurvöll og beðið okkur um að hætta við þetta? Nei, það hefur ekkert slíkt erindi borist frá saksóknara Alþingis um að hætta málatilbúnaðinum. Þvert á móti hefur saksóknari ítrekað lýst því yfir að ekkert það hafi gerst í málinu, engin sú eðlisbreyting orðið, er réttlæti að það verði afturkallað. Því hefur saksóknari lýst í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og lýsti sömuleiðis yfir þar að það sé ekki hennar tillaga, það sé ekki hennar ósk, það sé ekki ósk saksóknara að málið verði afturkallað.

Vitnað hefur verið til þess að breyting hafi orðið á ákæruatriðum, að landsdómur hafi fellt niður tvö mikilvægustu og stærstu ákæruatriðin. Hvað segir saksóknari sjálfur um það? Saksóknari er allt annarrar skoðunar. Með leyfir forseta segir saksóknari í viðtali við Morgunblaðið þann 30. október 2011:

„Það eru þarna tveir liðir sem landsdómur telur að hafi ekki verið nægilega skýrir. Fyrri liðurinn, þ.e. fyrsti liður ákærunnar, er til fyllingar öðrum ákæruliðum eða eins og segir í úrskurðinum … “

Liðurinn er ekki felldur niður heldur er hann til fyllingar öðrum ákæruliðum, hann kemur fram í öðrum ákæruliðum. Þess vegna er talið, að mati landsdóms sjálfs, óþarfi að halda honum vakandi þar sem atriði hans koma fram í öðrum liðum.

Það sama á við um annan lið ákærunnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Seinna atriðið, liður 1.2. í ákærunni, fer út en landsdómur telur að hann heyri að hluta til undir annan ákærulið.“

Það er ekki einu sinni verið að vísa þessum ákæruatriðum frá. Þau eru þarna til fyllingar öðrum liðum og heyra undir aðra ákæruliði. Þau rök standast því engan veginn skoðun frekar en margt annað í nefndaráliti minni hlutans.

Er það þá verjandinn sem er að koma hingað til þingsins, verjandi fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem situr fyrir landsdómi, er hann komið hingað niður á þing? Hefur hann óskað eftir fundum með þingnefndum og farið fram á að fallið verði frá málaferlum? Nei, það hefur hann ekki gert mér vitanlega. Ég veit ekki til þess að borist hafi erindi frá verjanda fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins um að falla frá málshöfðun á hendur honum. Er það þá landsdómur sjálfur sem hefur óskað eftir því? Hefur landsdómur fjallað um málið með þeim hætti að rétt sé að hætta við, falla frá málshöfðuninni, þetta sé ónýtt mál? Það séu minni líkur á sekt en þegar lagt var af stað með málið? Nei, það hefur landsdómur ekki gert heldur þvert á móti.

Þegar landsdómur tók þá ákvörðun að fyrsta og annað ákæruatriði málsins væri óþarft af þeim sökum að það rúmaðist innan annarra ákæruatriða þá fólst í leiðinni í því það álit landsdóms að rétt væri að halda áfram með þau fjögur sem eftir voru. Að öðrum kosti hefði landsdómur einnig vísað þeim frá. Hann ákvað að vísa tveim frá en halda fjórum vakandi, að rétt væri að halda þeim áfram.

Hver er þá að biðja um þetta? Hver er þá að óska eftir því? Á hvers vegum er þetta mál inni á þingi nema þá Sjálfstæðisflokksins, enda er það borið fram af formanni Sjálfstæðisflokksins einum og sér? Það er hann sem er kominn með þetta mál hingað inn á þing, hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og enginn annar. Það eru engin efnisleg rök fyrir því. Það hefur enginn málsaðili, ekki Alþingi, ekki saksóknari, ekki verjandi, ekki landsdómur, ekki nokkur maður, beðið um þetta nema formaður Sjálfstæðisflokksins. Það er þá ólíku saman að jafna hvernig lagt var upp með þetta mál á sínum tíma af hálfu þingsins með lagasetningum haustið 2008, í kjölfar versta efnahagshruns sem nokkurt vestrænt ríki hefur gengið í gegnum. Þá var talin ástæða til að skoða það. Þá var talin ástæða af Alþingi, af ráðherrum þeirrar ríkisstjórnar og þinginu. Ég veit ekki betur en þau lög hafi verið samþykkt án nokkurra mótatkvæða.

Það var samdóma álit Alþingis árið 2008 að láta rannsaka þetta mál. Það var lagt upp með það, það var ekkert óvart í því, það var vísvitandi gert. En það er ekki samdóma álit Alþingis núna að hætta við það. Það er langur vegur frá því. Það er borið upp, framreitt og matreitt af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins og einskis annars.

Nefndar hafa verið ýmsar ástæður fyrir því að hætta við málaferli á hendur fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins. Í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að rétt sé að minna á að frá því að málshöfðunin var ákveðin í þinginu í september 2010 hafi komið fram mun meiri upplýsingar um hina alþjóðlegu kreppu en við höfðum þá, að við höfum meiri upplýsingar um hina alþjóðlegu kreppu núna en við höfðum 2008.

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins er ekki ákærður fyrir hina alþjóðlegu kreppu. Það er bara ekki þannig. Ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn er stór og sterkur og vill vera það og telur sig áhrifamikinn flokk. En mér finnst það ofmælt ef menn ætla sér að halda því fram að þeir séu ákærðir fyrir hina alþjóðlegu kreppu. Það er langur vegur frá því. Þó að þræðir flokksins mikla liggi víða þá er hann ekki það sterkur að rætur hans liggi um heimsálfurnar, sem betur fer. Eru það þá einhver rök að meiri upplýsingar liggi fyrir um hina alþjóðlegu kreppu og því eigi að hætta við að sækja fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins til saka? Hvaða rök eru það eiginlega?

Er ekki myndin frekari skýrari hér heima af afleiðingum þess sem þá gerðist haustið 2008? Er hún ekki skýrari? Finnur fólk ekki frekar fyrir því í dag en sumarið 2010 og haustið 2010 hvaða afleiðingar þessi kreppa hafði og hvaða afleiðingar vondar ákvarðanir, það skeytingarleysi gagnvart störfum sínum sem ráðherrar voru sakaðir um, hafa haft á almenning í landinu, fyrir lífið í landinu, samfélagið allt? Er þetta ekki aðeins skýrari mynd? Er það ástæða til að hætta við? Ég held ekki. Ég get ekki fallist á það, heldur þvert á móti.

Einnig kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að ekkert komi fram í málinu sem eykur líkur á sakfellingu. Hefur eitthvað komið fram í málinu öfugt við það, eitthvað sem dregur úr líkum á sakfellingu? Hvað er það þá? Hvaðan kemur það? Er það frá saksóknara? Nei, það er ekki álit saksóknara, það hefur ekki verið lagt á borð okkar þingmanna í þinginu eða í þingnefndum, heldur þvert á móti. Halda áfram, klára málið, ljúka málinu, það hefur verið skoðun saksóknara frá upphafi og er enn. Það hefur sem sagt ekkert komið fram og það er ekkert í nefndaráliti minni hlutans sem skýtur stoðum undir þann texta sem þar er, ekkert hefur komið fram í málinu sem dregur úr líkum á sakfellingu.

Hver er þá ástæðan fyrir því að verið er að færa þetta mál hingað inn? Hvernig stendur á því að ofuráhersla er lögð á það að hafa áhrif á þennan dómstól með þeim hætti sem hér er lagt fram af hendi formanns Sjálfstæðisflokksins í máli gegn fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins? Er það áhugi Sjálfstæðisflokksins á dómstólum almennt? Það er talsverður áhugi hjá Sjálfstæðisflokknum, og hefur verið í gegnum árin, á dómstólum. Flokkurinn hefur sýnt dómstólunum sérstaka flokkslega alúð í gegnum tíðina, sinnt þeim vel, séð til þess að vel sé skipað í þá og lagt ýmislegt af mörkum til að hafa áhrif á dómstólana. Fyrir nokkrum dögum kom í ljós að hálfur Hæstiréttur, helmingur hæstaréttardómara, var vanhæfur til að dæma í máli eins flokksmanns, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, vegna flokkstengsla, hálfur Hæstiréttur.

Ekki er ýkjalangt síðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haft áhrif á dómstóla. Ég ætla að rifja upp tvö mál sem ég tók bara af handahófi en eru öllum kunnug. Menn geta haft sínar skoðanir á málunum en þau tengjast flokknum með beinum hætti.

Ekki eru mörg ár síðan einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem þá var reyndar farinn út af þingi, en var á þingi þegar hann var ákærður, var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt, umboðssvik í opinberu starfi, mútuþægni og rangar skýrslur til yfirvalda. Það var þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem var dæmdur fyrir þetta. Hann sat í fangelsi einhvern tíma en losnaði síðan út. Samkvæmt íslenskum hegningarlögum má veita sakamönnum, sem hafa uppfyllt ákveðin skilyrði, uppreist æru eins og það er kallað, það má reisa æru þeirra upp til fyrri hæða hafi þeir óflekkað mannorð. En það þarf forseti Íslands að gera. Það var gert í þessu tilfelli, að sá þingmaður sem hér um ræðir var reistur upp til þeirra hæða, með hans eigin æru, sem allir vita hvernig farið hefur síðan. En það var ekki gert af forseta, það var ekki forseti sem gerði það. Tækifærið var notað þegar forseti fór úr landi og það voru handhafar forsetavaldsins á þeim tíma sem gengu þá í verkið, hv. fyrrverandi forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, forseti Hæstaréttar, Gunnlaugur Claessen, og þáverandi forsætisráðherra, sem var hver? Geir Hilmar Haarde, sá sami og situr núna fyrir landsdómi. Það var sem sagt ekki verið að veita uppreist æru fyrir dómi eða fyrir forseta. Nei, það var flokkurinn sem greip til sinna ráðstafana. Það var á flokkslegum nótum sem gripið var inn í það mál vegna áhuga flokksins á dómstólum og vegna áhuga hans á að sjá um sitt fólk beggja vegna borðs, bæði á sakamannabekknum sem í dómarasætinu.

Ekki er lengra síðan en í fyrra að einn fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins fékk dóm fyrir Hæstarétti vegna skipunar í héraðsdóm, það var 14. apríl 2011. Það þarf ekki að fara lengra aftur en það. Þannig vill til að það var einn af þeim fjórum sem lagt var til að yrði ákærður af þingi 2010 en þingið ákvað að ákæra ekki. Sá ráðherra hafði skipað héraðsdómara — eins og segir í dómnum — sem uppfyllti engar þær kröfur sem til hans voru gerðar nema flokkslegar. Í hæstaréttardómnum segir, með leyfi forseta:

„Í sérstakri umsögn dómnefndarinnar“ — um þann umsækjanda sem skipaður hafði verið — „sagði meðal annars að hann hefði um átta ára reynslu við störf þar sem reynt hafi á lögfræðiþekkingu, þar af tæplega þrjú og hálft ár sem aðstoðarmaður héraðsdómara, tæplega fjögur og hálft ár sem aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra og síðustu mánuði sem aðstoðarsaksóknari og deildarstjóri við lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafi hann tekið drjúgan þátt í félagsstörfum, einkum á vettvangi tiltekins stjórnmálaflokks.“

Og þar með var stimpillinn kominn, í starf með manninn, koma honum til verka alveg endilega, koma manninum af stað, láta hann fara að dæma á vegum og í umboði flokksins.

Sá ráðherra sem þarna skipaði til verka og skipaði þennan dómara í héraðsdóm gerði það vitandi vits hvað hann var að gera. Það var ekki ósjálfrátt, það var ekkert meðvitundarleysi, það var í fullri meðvitund sem það var gert, vitandi hvaða áhættu hann mundi taka, enda fékk þáverandi ráðherra, Árni Mathiesen, dóm og var dæmdur í Hæstarétti fyrir að skipa héraðsdómara með þeim hætti sem hann gerði þarna og ganga þvert á allar tilteknar venjur og reglur við skipan dómara hér á landi.

Þetta eru aðeins tvö eða þrjú dæmi sem ég hef nefnt um þá hugulsemi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt dómstólum í landinu í gegnum tíðina, bæði dómurum sjálfum, dómstólunum, og þeim sem hafa þá væntanlega verið ranglega dæmdir að mati flokksins. Kannski erum við þá komin að kjarna málsins, út af hverju Sjálfstæðisflokkurinn vill draga þetta til baka. Það fer kannski bara rækilega í taugarnar á forustu Sjálfstæðisflokksins að í landinu starfi dómur, landsdómur, sem er ekki skipaður af flokknum, þar sem ekki er hægt að kippa í þræðina, dómur sem ekki er hægt að nota eins og brúður fyrir framan sig.

Kannski er það ástæðan, ég veit það ekki. En mann fer að gruna það þegar jafnslakt og lélegt nefndarálit er lagt fram í fullkominni rökleysu eins og nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessu máli er meira og minna. Þar eru engin rök lögð fyrir, engin eðlisbreyting á málinu sem kallar á að hætta eigi við málaferlið, hvergi nokkurs staðar. Það eru flokkslegar ástæður. Málið er komið hingað inn af flokkslegum ástæðum, það er borið hingað inn á höndum formanns Sjálfstæðisflokksins og héðan skal það út á þeim vegum sömuleiðis ef þeir ná sínum málum fram.

Virðulegi forseti. Í dag hefur mikið verið rætt um tæknileg atriði þessa máls, lögfræðileg atriði og fleiri slík, sem ég ætla ekki að blanda mér í, enda hafa mér miklu fróðari menn farið yfir það og um það eru einfaldlega skiptar skoðanir. En ég ítreka að það var á vegum Alþingis sem þetta mál hófst 2008, undir forustu þáverandi forsætisráðherra Geirs H. Haardes, þess hins sama og nú situr fyrir dómi. Það var á vegum Alþingis sem lagt var af stað með þetta en það er ekki á vegum þingsins sem þetta mál er hér núna. Það er á vegum Sjálfstæðisflokksins og þannig ber að fjalla um það og hantera á alla kanta. Þingið verður einfaldlega að standa í fæturna, spyrna við fótum og sýna að það verður ekki ofurliði borið jafnvel þó að Sjálfstæðisflokkurinn reyni það.