140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:48]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skemmtileg ræða að mörgu leyti. Af hverju drífur ríkisstjórnin ekki bara fram úr ermum sínum frumvarp? spyr þingmaðurinn og krefst þess um leið að það sé komist að sátt í málinu.

Ég segi nú bara: Vel skal vanda það sem lengi á að standa. Það er einmitt í þeim anda sem ég tel rétt að fara með ákveðnar spurningar inn í þjóðaratkvæðagreiðslu, grundvallarspurningar, áður en við sýnum útfært frumvarp svo við vitum hreinlega (Gripið fram í.) hver meirihlutavilji þjóðarinnar er varðandi ákveðin grundvallarsjónarmið. (Gripið fram í: Af hverju gerðuð þið það ekki …?) Ég ætla ekki að semja þá skoðanakönnun fyrir ríkisstjórnina, ég er að vonast til þess að henni verði sjálfri falið að ráða fram úr því. (Gripið fram í: Af hverju gerðuð þið það ekki á …?)

Síðan ætlaði ég að segja við hv. þingmann að ég var ekki að væna hann um einhver hagsmunatengsl eða að ganga einhverra óeðlilegra erinda hagsmunaaðila í þessu máli. Ég hef aldrei sagt neitt slíkt og vil bara (Gripið fram í.) árétta hér að ég hef ekkert slíkt í huga þegar ég segi að sáttin þurfi að vera við fleiri en hagsmunaaðilanna. Það er bara almenn yfirlýsing. Sáttin þarf að vera við íslenska þjóð, að sjálfsögðu, og ég bið menn að vera ekki að snúa út úr orðum mínum hér.

Þingmaðurinn spurði í ræðu sinni hvernig ég sæi að byggðatengingarnar ættu að vera og af hverju ég legði ekki beinlínis til að farið yrði í beinar byggðatengingar. Það er bara ekki sama hvernig að byggðatengingunum er staðið, hvort þar sé til dæmis um að ræða miðstýrða ráðherraúthlutun þar sem tekjur af auðlindasjóði væru eitthvert rassvasabókhald hjá ráðherra sem mundi skenkja byggðunum úr hendi sinni af sinni náð. Það er bara ekki sú byggðauppbygging eða stefnumótun sem ég vil sjá. Ég vil sjá, eins og ég sagði áðan, að byggðirnar geti bjargað sér sjálfar á grundvelli jafnræðis og atvinnufrelsis sem þær eiga rétt til samkvæmt stjórnarskránni