140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

kynheilbrigði ungs fólks.

451. mál
[16:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að ræða þessi mál og leita lausna. Hér hafa komið fram ýmsar hugmyndir um hvað þarf til. Ég held að það sé líka mikilvægt að við tökum upp ábyrgð foreldra og hlutverk þeirra í uppeldinu, ábyrgðina að fylgjast með, um hæfilegan aga og reglu í kringum útivist, áfengisdrykkju og annað slíkt. Ég held að við megum alls ekki gera lítið úr því. Eins og hér hefur komið fram er hlutverk heilsugæslustöðvanna mikið og þá líka heilsuvernd í framhaldsskólum undir heilsugæslustöðvunum. Þá hefur jafningjafræðslan verið nefnd. Ég held að það skipti líka mjög miklu máli, það hefur sýnt sig í öðrum þáttum.

Ég hef bundið miklar vonir við þetta HOFF-verkefni vegna þess að þar er reynt að nálgast, einmitt að frumkvæði nemendafélaga og í samstarfi skólaheildarinnar, verkefnið um bættan lífsstíl og bætta heilsu, t.d. hvað varðar fæði. Þar er líka sérstaklega talað um geðvernd, kynheilbrigði og annað slíkt.

Ég fagna því frumvarpi sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur lagt fram um að lækka virðisaukaskatt á smokkum úr 25,5% í 7%. Það má segja að hún hafi stolið af mér glæpnum eða orðið á undan og ég fagna því mjög og mæli eindregið með því að frumvarpið fái framgang í velferðarnefnd og að við reynum að koma því í gegn sem þingmannafrumvarpi. Það eru ýmsir sem hafa stutt það og ég hafði einmitt hugsað mér að flytja þennan áróður fyrir því um leið og ég flyt frumvarpið um að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fá að gefa út lyfseðla fyrir getnaðarvörnum.

Almennt þarf að hlúa vel að ungu fólki og fjölskyldum þess með viðeigandi úrræðum á heimilum, í skólum og samfélaginu eins og við höfum rætt hér og reyna á þann hátt að stuðla að jákvæðum þroska ungmenna, eflingu sjálfsmyndar og vellíðanar. Slíkt hefur áhrif á kynlíf (Forseti hringir.) og kynhegðun ungs fólks og það þarf ávallt að hafa þessi atriði í hávegum í samfélagi okkar.