140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[15:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að hefja umræðu um skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum. Við getum öll verið sammála um að ef ríkissjóður eða stofnanir ríkisins stofna til skuldbindinga þarf að gera grein fyrir þeim svo öllum megi vera ljóst hver staðan er til lengri eða skemmri tíma. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar hann nefnir 6. gr. heimildir fjárlaga. Þær hafa í gegnum tíðina verið rúmar þó að ákveðnar skorður séu settar í gildandi fjárlögum um þessa grein.

Hv. þingmaður nefnir í þessu sambandi yfirlýsingar ráðherra um að innstæður í bönkum séu tryggðar. Stjórnvöld hafa endurtekið lýst því yfir að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum hér á landi yrðu tryggðar að fullu ef nauðsyn krefði. Ábyrgð ríkissjóðs á innstæðunum hefur ekki verið lögfest en segja má að yfirlýsingin feli í sér skuldbindandi stefnu og vilja stjórnvalda. Í skýringum með ríkisreikningi er gerð grein fyrir þessari yfirlýsingu. Ef heildarupphæðin yrði hins vegar skráð í bækur ríkisins sem skuldbinding gæfi það ranga mynd af stöðu ríkissjóðs en nauðsynlegt er hins vegar, og nægilegt, að geta hennar í texta.

Hv. þingmaður bendir á að Icesave-samningurinn sem undirritaður var af fjármálaráðherra og lögfestur 30. desember 2009 hafi ekki komið fram í fjáraukalögum 2009. Eitt af skilyrðunum fyrir gildistöku þess samnings var að viðsemjendur okkar samþykktu hann en það gerðu þeir ekki. Því var enginn samningur og engar skuldbindingar til að skrá. Icesave-deilan stóð eftir óútkljáð og því var í texta ríkisreiknings getið um hvaða fjárhæðir væri þar um að tefla og ríkisendurskoðandi skrifaði upp á þá tilhögun. Margar aðrar kröfur mætti nefna og bæði hefur hv. þingmaður rætt þær úr þessum ræðustól og eins er um þær rætt í skýrslu ríkisendurskoðanda. Það mætti nefna kröfur á Sögu Capital, VBS, Sjóvá og önnur fjármálafyrirtæki sem voru fluttar í árslok 2009 aftur til Seðlabankans og er nú haldið utan um í eignarhaldsfélagi Seðlabankans. Þar er utanumhaldið að öllu leyti og í skýringum með ríkisreikningi er gerð grein fyrir ábyrgð vegna innstæðna SpKef. Þar hefur einnig verið gagnrýnt að þær hafi ekki verið bókfærðar en þar sem enn er ekki ljóst hver upphæðin er verður skiljanlega ekki hægt að færa hana í bækur ríkissjóðs. Auðvitað má gera grein fyrir henni í texta.

Hv. þingmaður nefnir að skuldbindingar vegna lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, B-deild, og lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og annarra eru færðar til skuldar í ríkisreikningi. Sú upphæð er nú um 350 milljarðar kr. Varðandi stöðu A-deildar hefur hún áður komið upp í þessum ræðustól og ég hef svarað því svo til að þegar um heildarstöðu sjóðsins er að ræða sé rétt að geta hennar í texta í ríkisreikningi en áfallin staða er hins vegar sú staða sem rétt er að skoða.

Skuldbindingar sem ríkissjóður kann að hafa tekið á sig vegna almennra lífeyrisbóta eru samkvæmt reikningsskilareglum ekki færðar til skuldar í ríkisreikningi frekar en að hugsanlegar tekjur vegna skattlagningar ríkisins verði færðar til tekna og eignar í ríkisreikningi.

Spurt er um skuldbindingar vegna launa ríkisstarfsmanna út uppsagnarfrestinn. Nú er ég að nefna spurningu sem hv. þingmaður sendi til undirbúnings þessarar umræðu. Því er til að svara að reikningsskilareglur gera ekki ráð fyrir því að skuldbindingar vegna réttinda sem launþegar kunna að njóta vegna uppsagnar verði færðar til skuldar.

Lög um byggingu háskólasjúkrahúss taka á þeim heimildum sem ríkissjóður hefur til undirbúnings þess verkefnis og bygging háskólasjúkrahúss er enn á undirbúningsstigi og því er ekki hægt að taka afstöðu til þess með hvaða hætti hún birtist í reikningsskilareglum ríkissjóðs.

Varðandi tónlistarhúsið Hörpu gerðu ríki og borg á sínum tíma samning við Portus hf. um greiðsluframlag til 35 ára vegna reksturs hússins og Alþingi veitti heimild til samningsgerðarinnar. Ríkissjóður hefur um nokkurt skeið gert rekstrarleigusamninga vegna húsnæðis fyrir ýmsa starfsemi ríkisins og samkvæmt reikningsskilareglum þarf ekki að geta skuldbindingar vegna rekstrarleigusamninga í reikningum ríkisins. Það eru hins vegar fjármögnunarsamningar sem þarf að gera grein fyrir. Eins og ég sagði hefur ríkissjóður um skeið gert nokkra rekstrarleigusamninga, (Forseti hringir.) og skuldbindingar inn í framtíðina eru ekki skilgreindar vegna þeirra.