140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hreinn misskilningur hjá hv. þingmanni að skýrsla sem Evrópusambandið er að vinna um stöðuna af sinni hálfu sé þannig að við séum bundin af öllu því sem þar er sett fram og öllum skilyrðum. Við erum í samningaviðræðum, hv. þingmaður, um Evrópusambandsaðildina. Sú niðurstaða sem kemur út úr því ræður því fyrst og fremst hvort það séu það hagstæðir samningar að við leggjum þá fyrir þjóðina.

Það er alveg ljóst að þessar aðildarviðræður eru ekki eftir skilyrðum eða á forsendum Evrópusambandsins. Ég verð að minna á að við settum fram ítarlega þingsályktunartillögu um það hvernig við vildum sameiginlega halda á hagsmunamálum íslensku þjóðarinnar í þessum samningaviðræðum, þar með um gjaldeyrismál. Það var athyglisvert að fara yfir það í gær og skoða að samstaða virðist um það í þessari þingsályktunartillögu að ef (Forseti hringir.) íslenska þjóðin vildi ganga inn í Evrópusambandið yrði í framhaldinu skoðuð evruaðild.

Forskriftin og leiðsögnin kemur héðan frá Alþingi um hvernig við höldum á þessu máli.