140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það séu mjög margir sammála mér um það að stærsta mál þessarar þjóðar sem hún þarf að glíma við séu gjaldmiðlamálin. Ég hygg að þeir sem telja að það sé allt í lagi með krónuna séu í afneitun. [Kliður í þingsal.] Ég spyr: Er Framsóknarflokkurinn í afneitun eða (Gripið fram í.) á hvaða ferðalagi er hann í þessu efni? Hann hefur talað fyrir kanadadollar, er hann þá ekki að tala um það að leggja niður krónuna, eða hvað? Síðan sagði ég aldrei að krónan væri ónýt eins og hv. þingmaður orðaði það, (BJJ: Ónothæf.) heldur benti ég á hið augljósa, að það þyrfti að breyta krónunni og því ástandi sem hún hefur skapað. Það er ekki hægt að láta eins og ekkert sé að, hv. þingmaður, þegar öllum er ljóst að krónan heldur hér uppi fölsku gengi og ef ekki væri fyrir höftin þyrfti ekki að spyrja um afleiðingar fyrir gengi, verðbólgu, kaupmátt og skuldsetningu og greiðslubyrði heimilanna. Hvaða áhrif hefur það ef við höldum þessu áfram?

Hér þarf að ná samstöðu um að setjast yfir það hvaða leið við eigum að fara í gjaldeyrismálum (Gripið fram í.) þjóðarinnar. Við þurfum að breyta um gjaldmiðil og við þurfum að setjast yfir afleiðingar þess ef það verður ekki gert. Það er verið að vinna að þessu í Seðlabankanum, fljótlega verður skilað skýrslu um leiðir í gjaldmiðlamálum. Það er nefnd að störfum með aðild þingmanna til að skoða valkosti í gjaldmiðlamálum og ég fullyrði að þetta sé stærsta mál íslensku þjóðarinnar og fyrir fyrirtækin og einstaklinga í þessu landi að þingmenn hætti afneitun í þessu efni og horfist í augu við staðreyndir og raunveruleikann, að þetta er stærsta mál íslensku þjóðarinnar, að menn setjist (Forseti hringir.) yfir það, hætti öllu karpi og skoði þann framtíðargjaldmiðil sem best hentar fyrir þjóðina. Það er sú leið sem við þurfum að fara og það er stærsta mál íslensku þjóðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Kliður í þingsal.]