140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi: Nei, ég átti ekki við hv. þingmann þegar ég talaði um gífuryrði en það voru margir hér við umræðuna sem voru gagnrýnir um of, fannst mér, að ósekju í garð þeirra sem hafa komið að smíði þessara frumvarpa. Mér fannst það vera ósanngjarnt og ég vísaði þar ekki síst í ummæli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur hér áðan. Mér finnst að starfsmenn ráðuneyta eigi ekki að þurfa að sitja undir svona tali af hálfu alþingismanna ef það er að ósekju.

Varðandi húsnæðismálin er þetta nokkuð sem við höfum rætt en það er augljóst að við verðum að fara hægt í sakirnar. Það sem við munum gera eftir að frumvarpið verður að lögum, sem ég vona að verði sem allra fyrst, er að setjast niður, ráðnir verða forstjórar hinna nýju stofnana og hafist verður handa við undirbúningsvinnu. Það verður síðan að ráðast af fjármunum sem við höfum handa á milli hve hratt við getum farið í sakirnar í þeim efnum.

Hvað varðar frekari hagræðingu sé ég það ekki í hendi mér. Ég ítreka að ég hef ákveðnar efasemdir um það sem fram kemur hvað þann þáttinn varðar. Ég tel að við höfum verið of bjartsýn þegar við settum þessar spár niður vegna þess einfaldlega að við höfum of litla peninga handa á milli til að flýta þeirri þróun sem mundi færa okkur fjárhagslegan ávinning.

Ég ítreka að þá þætti, sem helst hafa verið gagnrýndir hér og snúa að hafinu og sjónum, vil ég alls ekki slá út af borðinu, (Forseti hringir.) þeir kunna að færast áfram. Það eru atriði sem við þurfum að skoða betur.