140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka upp mál sem hv. þm. Helgi Hjörvar gerði grein fyrir í upphafi þessa þingfundar og varðar upplýsingar sem ræddar voru á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar í morgun um lánveitingu Seðlabankans til Kaupþings hinn 6. október 2008. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli þingmannsins að það er mikilvægt að afla frekari gagna um þann gjörning sem þá átti sér stað og rökin á bak við það allt saman og fá fram ítarlegri upplýsingar um málið.

Eins og fram kom þá vekur þessi ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans nokkra athygli og umhugsun. Þetta virðist ekki hafa verið gert með formlegum hætti. Formleg ákvörðun virðist ekki hafa verið tekin af bankastjórninni um að veita umrætt lán upp á 500 millj. evra og ekki var gengið frá skriflegum lánasamningi þar að lútandi.

Nú kann að vera að það sé alsiða hjá seðlabönkum að ganga þannig frá málum en ég tel alla vega fulla ástæðu til að skoða þetta sérstaklega. Það er rétt, sem fram hefur komið, að Seðlabankinn á að virka sem lánveitandi til þrautavara en engu að síður vekur það nokkra umhugsun að þessi ákvörðun er tekin um hádegisbil þann 6. október 2008. Samkvæmt upplýsingum bankastjóra Seðlabankans mun formaður bankastjórnar hafa átt samráð við forsætisráðherra um lánveitinguna en þennan sama dag var verið að undirbúa að leggja fram á Alþingi frumvarp til svokallaðra neyðarlaga og það hefur komið fram í umræðum um þetta mál að undanförnu að bankastjórn Seðlabankans taldi sig vita löngu áður en bankarnir hrundu að þeir mundu ekki lifa þessa efnahagskreppu af (Forseti hringir.) og félli einn þá mundu þeir allir falla. Í því ljósi hlýtur þessi ákvörðun að vekja nokkra umhugsun svo að ekki sé meira sagt og er full ástæða til að skoða það mál rækilega.