140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan að við ættum ekki að ræða mikið um það sem liðið er. Ef ég reyni að setja mig í hans spor get ég tekið undir það með honum, a.m.k. hvernig það snýr að honum.

Það mál sem hér hefur verið rætt í dag varðar lánveitingar Seðlabankans til Kaupþings daginn sem frumvarp til neyðarlaga var flutt úr þessum ræðustól, lán sem var veitt með vitund seðlabankastjóra sem segir sjálfur að hann hafi þá vitað fyrir löngu að bankakerfið hafi allt verið fallið og hrunið og gæti aldrei staðið þetta af sér. Þetta lán var veitt með vitund og í samráði þess forsætisráðherra sem síðar þann sama dag steig í ræðustól þingsins og flutti frumvarp til neyðarlaga vegna þess að bankarnir voru fallnir. Mér finnst það alveg tilefni til frekari umfjöllunar, virðulegi forseti. Mér finnst fullt tilefni til að ræða það frekar þegar seðlabankastjóri Íslands lánar 85 milljarða kr. í fallinn banka án þess að um það sé gerður samningur, án þess að um það sé tekin ákvörðun í stjórn bankans. Hins vegar bar seðlabankastjóri sig upp við þáverandi forsætisráðherra og báðir segjast hafa vitað að allt væri fallið. Það var allt hrunið en samt veittu þeir 85 milljarða kr. í fallinn banka. Það var kallað að sinna skyldum Seðlabankans til að veita lán til þrautavara nokkrum klukkutímum áður en frumvarp til neyðarlaga var flutt.

Virðulegi forseti. Ef einhvern tímann hefur verið tilefni til að skoða mál af svipuðum nótum og tengist hruninu eins og hér er til umfjöllunar er það um þetta mál. Það er mín eindregna skoðun (Forseti hringir.) að þingið eigi að ræða þetta mál ítarlega og setja það í rannsókn eins og önnur mál af þessu tagi.