140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er athyglisverð og virðist til þess fallin hjá vinstri flokkunum sem mynda ríkisstjórn að beina athyglinni frá því að núverandi seðlabankastjóri klúðraði veðunum sem standa að baki þessu láni. Við skulum hafa á hreinu í hvaða tímaröð þessir atburðir gerðust.

En ég er ekki komin hingað til að ræða það í dag heldur til að ræða þá forræðishyggju sem einkennt hefur lagasetningu Alþingis síðan þessi ríkisstjórn tók við. Við munum öll eftir því að hér voru sett lög sem bönnuðu fólki undir 18 ára aldri að fara í ljósabekki. Það var sérstaklega gert í ljósi þess að geislar ljósabekkja gætu verið krabbameinsvaldandi. Gott og vel, þetta fór í gegnum þingið. Þess vegna undra ég mig í dag og undanfarna viku á þeim tíðindum sem berast af frumvarpi frá hæstv. velferðarráðherra, að hér eigi að setja í lög að ungar stúlkur geti fengið getnaðarvarnarpilluna hjá skólahjúkrunarfræðingum.

Ég minni á að samkvæmt vísindum eiga þær stúlkur sem byrja að stunda kynlíf mjög ungar og gera það oftar en æskilegt er einnig á hættu að fá krabbamein. Ég skil ekki á hvaða leið hæstv. velferðarráðherra er þegar hann leggur til að lögleiða þetta vegna þess að málið er grafalvarlegt. Nú þegar eru til úrræði fyrir þessi ungu börn sem eru langtum öruggari upp á sjúkdómahættu en þau að hvetja ungar stúlkur til að fara á bak við foreldra sína og fá þessa ávísun hjá skólahjúkrunarfræðingi en ekki læknum.

Við höfum farið í gegnum umræðu um brjóstapúða og skaðabótaskyldu ríkisins í því máli. Ég spyr, herra forseti: (Forseti hringir.) Hver verður skaðabótaskyldur eftir nokkur ár þegar áhrif þessara lyfja verða ljós ef þetta verður að lögum?