140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Með frumvarpinu er lögreglu veitt styrkari heimild til að hefja rannsókn og beita í þágu hennar ýmsum rannsóknarúrræðum þegar um er að ræða vitneskju eða grun um að verið sé að undirbúa eða leggja á ráðin um að fremja brot sem fallið getur undir ákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um skipulagða brotastarfsemi. Er frumvarpið liður í því að styrkja heimildir lögreglunnar í baráttunni við starfsemi skipulagðra brotasamtaka.

Samkvæmt 52. gr. laga um meðferð sakamála skal lögregla hefja rannsókn þegar hún hefur vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið. Þannig hefur lögreglan í dag heimild til að hefja rannsókn þegar ljóst er að brot er fullframið, en einnig þegar um tilraun til brots er að ræða. Heimildir lögreglunnar til að beita þeim rannsóknarúrræðum sem kveðið er á um í XI. kafla laga um meðferð sakamála um símahlustun og önnur sambærileg úrræði eru hins vegar bundnar við að brot það sem um ræðir geti að lögum varðað átta ára fangelsi eða að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist.

Samkvæmt íslenskum rétti geta undirbúningsathafnir fallið undir hið almenna tilraunaákvæði í 20. gr. almennra hegningarlaga. Til að undirbúningsathöfn geti talist tilraun til brots þarf sá sem í hlut á að hafa ótvírætt sýnt þann ásetning í verki að fremja tiltekið brot. Er almennt talið að í því felist að ákvörðun um að fremja brot hafi verið tekin þótt viðkomandi hafi ekki verið búinn að leggja niður fyrir sér í einstökum atriðum hvernig framkvæmdinni skyldi háttað. Á grundvelli gildandi löggjafar skal lögreglan því hefja rannsókn máls samkvæmt 52. gr. laga um meðferð sakamála þegar hún hefur vitneskju eða grun um að verið sé að skipuleggja afbrot.

Með þeirri breytingu sem hér er lögð til fær lögreglan skýra heimild til að hefja rannsókn þrátt fyrir að tilteknir einstaklingar hafi ekki sýnt í verki ótvíræðan ásetning um að fremja afbrot. Það er þó skilyrði fyrir heimildinni að grunur leiki á um að um sé að ræða brot samkvæmt 175. gr. a almennra hegningarlaga, en samkvæmt því ákvæði er það refsivert ef menn sammælast um að fremja brot sem varðað getur fjögurra ára fangelsi og brotið er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Lögreglan fær því ótvíræða heimild til að hefja rannsókn þegar hún hefur grun eða vitneskju um að verið sé að leggja á ráðin um að fremja afbrot sem lið í starfsemi skipulagðra brotasamtaka þótt menn hafi ekki sýnt í verki ótvíræðan ásetning um að fremja tiltekinn refsiverðan verknað.

Þá er sú breyting lögð til í frumvarpinu að lögreglan fær heimild til að beita þeim rannsóknarúrræðum sem kveðið er á um í XI. kafla laga um meðferð sakamála, um símahlustun og önnur sambærileg úrræði þó að brot það sem rannsókn beinist að varði ekki átta ára fangelsi eins og kveðið er á um í umræddum kafla, heldur nægir að við brotinu liggi fjögurra ára fangelsi.

Verði frumvarpið að lögum fær lögregla heimild til að fara fram á dómsúrskurð um húsleit, símahlustun og önnur sambærileg rannsóknarúrræði þegar hún hefur grun um að í starfsemi skipulagðra brotasamtaka sé verið að leggja á ráðin um að fremja brot sem varði fjögurra ára fangelsi. Með þessari heimild er því dregið úr þeim ríku kröfum sem almennt gilda um rannsókn mála þegar grunur er um að í undirbúningi sé refsiverður verknaður sem er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka.

Nauðsynlegt er að eftirlit sé haft með því hvernig þessum rannsóknarheimildum verður beitt. Er því í þessu frumvarpi lagt til að ríkissaksóknari hafi eftirlit með rannsókn og aðgerðum lögreglunnar á grundvelli þessarar heimildar. Skal hann setja reglur um skyldu lögreglu til að tilkynna honum um framvindu rannsóknar á fyrirhuguðum brotum. Þannig er ráðgert að lögreglu verði gert skylt að tilkynna ríkissaksóknara um sérhverja rannsókn sem hafin er í þessum tilgangi, hvernig rannsókninni miðar áfram og loks með hverjum hætti henni lýkur. Þannig geti ríkissaksóknari haft eftirlit með því hvernig heimild á grundvelli þessarar greinar er nýtt og veitt lögreglu aðhald við beitingu hennar. Þá er jafnframt lagt til að ríkissaksóknari gefi allsherjarnefnd Alþingis skýrslu um hvernig lögreglan hefur beitt þessum heimildum sínum, en með því móti getur löggjafarvaldið fylgst með þróun úrræðisins, auk þess sem slík skýrslugjöf þykir til þess fallin að veita mikilvægar upplýsingar um eðli skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi.

Ég vek athygli á að það er nýlunda að tengja eftirlitið inn í þingið með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir ákvæðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.