140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:38]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er til umræðu og ég styð raunar heils hugar málflutning þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls sem vilja ganga nokkuð lengra í þessu efni en lagt er til í frumvarpinu. Ég held að við eigum að skoða með opnum huga allar þær leiðir sem okkur eru færar til að hemja þessa brotastarfsemi á Íslandi. Í því efni held ég að ekki sé nóg fyrir okkur að líta til reynslunnar á Norðurlöndunum eða á meginlandi Evrópu, sem sýna hugsanlega fram á að tilteknar heimildir duga ekki til. Við verðum að nýta okkur þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Sú sérstaða felst einfaldlega í því að við erum með eina samræmda lögreglu og eitt ríki sem umlukið er sjó á alla vegu þannig að ekki þarf að senda mál á milli lögregluumdæma eða annað slíkt sem getur annars tafið meðferð og rannsóknir mála. Það er mun erfiðara fyrir þau ríki sem eiga landamæri að öðrum ríkjum eða eru fylkjaskipt og með sjálfstæði í innanríkismálum sínum, eins og á til dæmis við um Bandaríkin og meginland Evrópu. Við getum takmarkað lært af þeirra reynslu þó að eitthvað getum við lært af þeim. Hér höfum við alla þræðina í hendi okkar og við eigum að nota þá og móta okkur sjálfstæða stefnu í þessum málum og grípa til þeirra úrræða sem við höldum að geti náð fram sem mestum árangri í þessu efni.

Það má líka vel vera að ganga megi lengra í öðru tilliti en nefnt er í frumvarpinu. Ef greinargerðin með frumvarpinu er lesin er frumvarpinu fyrst og fremst ætlað að taka á framkvæmd refsiverðra verknaða sem varða beint eða óbeint eitthvað sem gerist í ávinningsskyni, þ.e. fjármunabrot. Það er auðvitað stór þáttur í starfsemi venjulegra glæpasamtaka, væntanlega til að græða peninga, en annar hluti þeirrar starfsemi felst í því að vernda samtökin sjálf, að vernda einstaka meðlimi þeirra. Við sjáum það birtast í skyndilegu minnisleysi vitna og brotaþola í málum fyrir dómstólum. Það eru ekki brot sem framin eru beint eða óbeint í ávinningsskyni heldur geta þetta verið „territoríal“ deilur á milli glæpasamtaka eða vernd eigin félagsmanna. Það verður því að minnsta kosti að rjúfa tengslin við það að þetta séu bara fjármunabrot og taka önnur brot þar undir, það er nauðsynlegt.

Hins vegar þarf auðvitað að gæta fullrar varúðar í þessu öllu saman, eins og margir þingmenn hafa bent á, þannig að það þarf að finna jafnvægið á milli þeirrar kröfu sem við eigum sem almennir borgarar til öryggis og þeirrar kröfu sem við eigum til friðhelgi á einkalífi okkar. Hvernig verður því best fyrir komið? Það er vandséð hvernig það verður gert. Ég hefði haldið að það eftirlit sem fram fer í þessu ætti ekki að fara fram innan kerfisins sem slíks heldur sé eðlilegt og rétt, þegar svona heimildir eru veittar sem geta verið umfangsmiklar og viðkvæmar, að taka eftirlitið út úr kerfinu sjálfu og færa það í hendur einhvers konar borgaralegra yfirvalda. Það sé sem sagt ekki ákæruvaldið sjálft eða lögreglan sem hefur eftirlit með sjálfu sér eða í þeim málum sem það kann seinna að ákæra í, heldur sé það borgaralegt eftirlit sem sé óháð réttarvörslukerfinu í landinu og mundi heyra beint undir Alþingi og gefa Alþingi skýrslu líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Að þessu sögðu vil ég lýsa eindregnum stuðningi mínum við málið. Ég heyri það á máli þeirra þingmanna sem hér hafa talað og sitja í allsherjar- og menntamálanefnd að þeir munu taka málið til vandlegrar skoðunar og vonandi koma með þær endurbætur á frumvarpinu sem nauðsynlegar eru til þess að lögregla og yfirvöld fái í hendur þau verkfæri sem þarf til að hemja skipulagða brotastarfsemi á Íslandi.