140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[18:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má taka undir margt í ræðu hæstv. umhverfisráðherra um þetta efni, sérstaklega viðvörunarorð um að þegar heimildir eru auknar þarf að sjálfsögðu að gæta þess að eftirlit með því sé líka í lagi þannig að einstökum yfirvöldum sé ekki falið sjálfdæmi um að ákveða beitingu heimilda. Það er meðal annars viðfangsefnið í þessu sambandi. Við þurfum með öðrum orðum, þegar við fjöllum um það mál sem hér er til umræðu, að velta fyrir okkur þeirri stóru spurningu hvort við ætlum að auka rannsóknarheimildir lögreglu, bæta við það sem við getum kallað forvirkar rannsóknarheimildir, en um leið er viðfangsefnið auðvitað að skoða að hvaða marki við þurfum og getum eflt utanaðkomandi eftirlit með slíkri starfsemi þannig að borgararnir geti verið nokkuð öruggir um að slíkum heimildum verði ekki beitt að tilefnislausu.

Það sem ég vildi kannski bregðast við í ræðu hæstv. umhverfisráðherra er að þegar horft er til annarra landa þurfum við ekki að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að vita að forvirkar rannsóknarheimildir annars staðar á Norðurlöndum hafa ekki upprætt skipulagða glæpastarfsemi þar. Við vitum það. Við vitum reyndar að sennilega er ekkert samfélag mannanna glæpalaust. Það er því alltaf spurning um hvaða tæki eru fyrir hendi, hvaða heimildir eiga við á hverjum stað á hverjum tíma. Það breytir ekki þeirri skoðun minni að mér finnst við geta horft til rótgróinna lýðræðisþjóða annars staðar á Norðurlöndum og leitað þar fyrirmynda í þessum efnum.