140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

skattlagning neikvæðra vaxta.

[14:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Enn ætla ég að kveða upp hina einmana röddu sparifjáreigandans á þingi og spyrja hæstv. ráðherra út í mál hans. Ég fékk svar á þskj. 530 frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að raunvextir á óverðtryggðum reikningum á Íslandi hefðu verið neikvæðir allar götur frá 2006 til 2011.

Þessir vextir eru skattaðir og ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að skattleggja neikvæðar tekjur? Það er fyrsta vers.

Síðan kemur í ljós að innstæður eru ekkert voðalega stór hluti af heildarsparnaði í bönkunum, það eru einungis 39% sem heimilin eiga og af því eru um 62% óverðtryggð. Stór hluti af sparnaði heimilanna brann upp þessi fimm eða sex ár sem til umfjöllunar eru og til viðbótar er hann skattlagður með síauknum hætti.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann engar áhyggjur af þessu? Þetta er eiginlega sama staðan og Íslendingar bjuggu við í 30 ár, til 1980 þegar allur innlendur sparnaður hvarf og sparnaðarviljinn líka. Af hverju ætti fólk að spara ef það tapar á því?

Þeir sem gátu hugsanlega keypt sér bíl, sjónvarp eða eitthvað slíkt fyrir sex árum geta það ekki lengur þó að þeir hafi lagt pening í banka. Þeir tapa á því að hafa lagt inn í banka.