140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[00:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ef hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á við að einhverjir af þeim sérfræðingum sem hafa þegar komið fyrir nefndina hafi tekið þátt í að semja spurningarnar eru það nýjar upplýsingar. Þeir sérfræðingar komu ekki til nefndarinnar á þeirri forsendu eða voru kynntir með þeim formerkjum að þeir hefðu tekið þátt í því að semja spurningarnar. Reyndar hafa allir þeir sérfræðingar sem komu fyrir nefndina haft að einhverju leyti eitthvað að athuga, sumir mikið, aðrir minna, við spurningarnar sem hér liggja fyrir. Það er auðvitað nauðsynlegt að þetta komi fram.

Það er reyndar áhugavert og verður áhugavert að sjá, af því að nú mun málið í fyllingu tímans ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hvernig meiri hlutinn í nefndinni hyggst bregðast við þeim athugasemdum sem fram hafa komið. Hv. formaður nefndarinnar hefur lýst ákveðnum atriðum sem hún telur að sé tilefni til að bregðast við, en það verður athyglisvert að heyra hvernig brugðist verður við öðrum athugasemdum sem fram hafa komið, bæði af hálfu sérfræðinga sem hafa komið fyrir nefndina og í þessari umræðu.