140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar þá næst að vekja athygli þingmannsins á 19. gr. í frumvarpinu þar sem fjallað er um þennan sjóð á vegum ráðherra sem skal útdeila úr af nefnd samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Samkvæmt þessu skal ríkið njóta 40% tekna, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%. Gerðar eru miklar athugasemdir við þetta í umsögn fjármálaráðuneytisins á bls. 59–60, ég fór yfir það í ræðu minni áðan en hv. þingmaður átti þess ekki kost að koma í andsvar við mig þá til að ræða þetta aðeins við mig. Það vekur athygli mína að ráðuneytið gerir miklar athugasemdir við þetta. Þetta vinnulag er að mínu mati skref aftur á bak til fortíðar þar sem verið er að búa til einhvern sjóð þar sem innkoman er sveiflukennd og ekki er hægt að gera ráð fyrir föstu framlagi til sjóðsins í fjárlögum heldur er þetta einhvers konar leiðrétting sem þarf að koma alltaf inn í lokafjárlögum á grundvelli endanlegs uppgjörs teknanna.

Í umsögninni kemur fram að fjárlagaskrifstofa hafi lengi bent á að þetta fyrirkomulag hafi reynst óheppilegt og samræmist illa nútímalegri rammafjárlagagerð og þá hafi fjárlaganefnd sjálf gagnrýnt slíkar ráðstafanir. Telur þingmaðurinn að þetta sé skref til fortíðar sem ríkisstjórnin er þarna að leggja til eða er ríkisstjórnin að leggja til að þetta verði þá tekið upp aftur og horfið frá þeirri rammafjárlagagerð sem verið er að reyna að styrkja í sessi hérna á undanförnum árum varðandi opna stjórnsýslu og þetta með að vitað sé að fjárlögin standi nokkurn veginn og verið sé að tala um fastar fjárhæðir þar en ekki svona hipsum haps?