140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var svo sem mig grunaði, ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki rætt um hvað gerist ef og þegar þjóðin fellir þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Það hefur ekki verið rætt.

Þá skal það upplýst hér að nú þegar hefur verið eytt á bilinu 800–1.000 milljónum af skattfé landsmanna í þetta vitavonlausa ferli frá upphafi. Nú skal enn bætt í og það er verið að tala um það hér að það sparist svo og svo margir tugir milljóna króna við að hafa þessa kosningu samhliða forsetakosningum. Ég ætla að snúa þessu við, virðulegi forseti, kostnaðurinn við forsetakosningarnar eykst vegna þess að hér er verið að fara af stað með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnarmeirihlutinn veit ekkert hvað hann á að gera við að afloknum kosningum, enda bera skjölin þess líka merki að þetta er mjög illa (Forseti hringir.) ígrunduð tillaga. Það voru gerðar breytingartillögur við hverja einustu tillögugrein á milli umferða.