140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að okkur sé öllum ljóst að orðalag einstakra spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu hlýtur að vera mjög vandmeðfarið. Það geta tvö sjónarmið verið uppi, annars vegar að reyna eftir föngum að einfalda og skýra valkostina eins og kostur er, hins vegar að bjóða upp á fleiri valkosti og fá þá hugsanlega, hugsanlega segi ég, nákvæmari niðurstöðu eða nákvæmari leiðbeiningu út úr atkvæðagreiðslunni, en taka um leið áhættuna af ákveðnum ruglingi.

Ég velti þessu einmitt töluvert fyrir mér í sambandi við þá spurningu sem hv. þingmaður vísar til. Niðurstaða okkar hv. þm. Ólafar Nordal var sú að ekki væri sanngjarnt að binda spurninguna við tillögur stjórnlagaráðs sem slíkar. Þess vegna lögðum við fram tillögu, eins og hv. þingmaður vísaði til, til að gefa þeim kost á að tjá afstöðu sína sem annaðhvort vilja engar breytingar á núgildandi stjórnarskrá eða telja rétt að vinna að stjórnarskrárbreytingum á einhverjum öðrum grunni (Forseti hringir.) en tillögum stjórnlagaráðs.