140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að reyna að svara í stuttu máli tiltölulega yfirgripsmikilli spurningu.

Fyrst um það að spurt sé hvort leggja eigi tillögu stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Það getur boðið upp á margvíslegar túlkanir. Það geta verið mikil blæbrigði í sjónarmiðum manna um hvað er að leggja til grundvallar. Ég mundi álíta að orðalagið að leggja til grundvallar geti gefið svigrúm til töluvert viðamikilla breytinga, plaggið lægi engu að síður til grundvallar en breytingar á einstökum ákvæðum, jafnvel einstökum köflum, gætu verið þegar upp er staðið töluvert viðamiklar. Leiðsagnargildi þessarar spurningar er því að mínu mati takmarkað fyrir vikið þó að orðalagið sé töluvert betra en það var í upphaflegri tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ég vil geta þess líka eins og ég nefndi hér í framsögu minni.