140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:16]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að mæla fyrir breytingartillögu sem ég ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni, Lilju Mósesdóttur, Ásmundi Einari Daðasyni og Telmu Magnúsdóttur flytjum við þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar, um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Ég vil í upphafi lýsa því yfir að ég er almennt mjög fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum um sem flesta þætti, ég tala nú ekki um álitaefni sem geta verið uppi í samfélaginu á hverjum tíma því að mjög mikilvægt er að fá beint samband við þjóðina í sem flestum málum. Ég minni til dæmis á að þegar hér á Alþingi var ákveðið vorið 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu var ég því svo sannarlega andvígur og studdi það að þjóðin yrði spurð áður en farið væri út í þá alvarlegu vegferð. Því miður felldi Alþingi þá tillögu og hóf ESB-vegferðina án þess að vera búið að fá samþykki þjóðarinnar fyrir því að hefja þær viðræður í rauninni þó svo sannarlega hafi Alþingi haft stjórnsýslulegt umboð til að taka þá ákvörðun. En ég er mjög hlynntur því að um slíkar meiri háttar ákvarðanir sé leitað með beinum hætti til þjóðarinnar og eins hvort farið sé í svo mjög alvarlegar og afdrifaríkar vegferðir. Þetta vil ég segja hér því að ég tel að einmitt sú umsókn um aðild að Evrópusambandinu sem var send af hálfu Alþingis, samþykkt með naumasta meiri hluta sem hægt er í rauninni að samþykkja slíkar ákvarðanir með — þeir sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu á sínum tíma og studdu það lýstu jafnframt yfir andstöðu sinni við málið, þ.e. umsókn um aðild að Evrópusambandinu, en samþykktu samt að hún yrði send — og ýmislegt í slíku álitamáli hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sú vegferð væri hafin óháð því hvaða skoðun menn hefðu síðan á því. Þetta vil ég segja í upphafi máls míns.

Að öðru leyti ætla ég svo sem ekki að fara mikið almennt inn í það mál sem hér er á dagskrá. Þó vil ég vekja athygli á því hvernig málið hófst á sínum tíma með kosningu í stjórnlagaráð. Einnig vil ég rifja upp og vekja athygli á skipan þess sem var með þeim hætti að það voru sárafáir, hvort það voru tveir eða þrír fulltrúar, sem komu frá hinum dreifðu byggðum. Að öðru leyti var það skipað að stórum hluta fólki af höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að fara að kasta rýrð á fólk eftir búsetu en vil þó minna á að búsetuskilyrði og sýn á svo marga þætti er með ólíkum hætti, því miður, í ýmsum tilvikum á milli þeirra sem eru á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem búa úti á landi. Það hefði því verið betur ef það hefði verið stærri hluti og jafnara hefði verið skipað hvað það varðar. Svo varð ekki og ég minni á að ég sat einmitt hjá þegar verið var að afgreiða það mál á sínum tíma og taldi það ekki vera í þeim farvegi sem æskilegt væri og nægilega trúverðugt enda reyndist nú svo að kosning til stjórnlagaráðs var dæmd ólögmæt og sá hópur sem tók síðan til starfa og vann þetta gerði það að tilhlutan Alþingis með beinum hætti en ekki eins og til var ætlast og stofnað var til í upphafi, að það væri þjóðin sem kysi þann hóp sem fengi þetta verkefni. Það er mjög mikilvægt að menn hafi þetta í huga í öllum þessum aðdraganda.

Ég ætla síðan ekki að gera neitt lítið úr vinnu hópsins eða vinnu hér á Alþingi í þessu máli. Ég tel reyndar að Alþingi hefði átt að taka efnislega meiri þátt í vinnunni því það er Alþingi sem ber ábyrgð á breytingum á stjórnarskránni og í sjálfu sér þeirri vinnu sem því tengist, en þetta fór þó í þennan farveg eins og öllum er kunnugt.

Þær spurningar sem eru lagðar upp eru í sjálfu sér margar ágætar þannig séð, ég tala nú ekki um þar sem lagt er til í annarri spurningu að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign væru lýstar þjóðareign hafi menn á annað borð efast um það, ég tel reyndar að í núverandi stjórnarskrá sé kveðið á um það. En það er alveg sjálfsagt að það sé áréttað og þjóðin spurð hvort ekki sé rétt að gera svo úr því að þetta er í þessu ferli.

Það sem ég mun síðan gera sérstaklega að umtalsefni í þessum spurningum, og mínar áherslur eru um það, er spurningin: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar af að landinu vegi jafnt? Að sjálfsögðu vill maður sem mest jafnræði í þeim efnum en þá er líka mjög mikilvægt að menn hugi að því. Um hvaða jafnræði er verið að tala?

Í þeirri skýrslu sem stjórnlagaráðið lét vinna og er um margt mjög ágæt, mál eru reifuð frá ýmsum hliðum, þá finnst mér einmitt skorta á að lagt sé mat á það hvernig staðan er í viðkomandi málum núna. Erum við að ná þeim markmiðum sem nú þegar eru í stjórnarskrá eða bundin eru í lögum? Þess vegna legg ég til að þjóðin verði þá líka spurð, ef þessi skoðanakönnun fer áfram, sem er líklegt og er í þeim farvegi, og því flytjum við þessa breytingartillögu: Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur opinberri þjónustu, óháð búsetu?

Í öðru lagi: Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur að þátttöku í ákvarðanatöku og trúnaðarstörfum vegna hins opinbera, óháð búsetu?

Ég held að mjög mikilvægt sé að þessum málum sé velt rækilega fyrir sér, þ.e. hver staða þeirra er í dag. Vissulega telja margir að þetta sé nú þegar bundið í stjórnarskrá með óyggjandi hætti. En hver hefur verið raunin? Það er eins gott líka finnst mér þegar farið er að velta fyrir sér að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt, sem ég tel að geri í pólitískum framboðum við núgildandi aðstæður. Það sem helst mætti kannski finna þar að er að það þarf ákveðinn fjöldi kjósenda á bak við tilgreint framboð til að fá mann kjörinn á þing, að mig minnir 5%, og ef það nær ekki 5% atkvæðamagni þá fær viðkomandi hópur ekki mann kosinn á þing. Ef við viljum tryggja lýðræðið með mörgum framboðum, og allir hafa rétt til þess, gæti þar orðið býsna stór hópur sem ekki á fulltrúa á þingi. Það finnst mér að hefði þá líka átt að vera viðfangsefni þessa stjórnlagaráðshóps að fjalla um og átta sig á þeirri stöðu, ekki vera svo ofboðslega upptekið af því hvort atkvæðavægi á bak við tiltekna þingmenn í kjördæmi sé endilega jafnt á landinu öllu, heldur horfa út frá þessum sjónarhóli. Eru allir þarna jafnir fyrir lögunum?

Varðandi síðan það sem ég legg áherslu á, eins og sagt er í skýrslunni um tillögur stjórnlagaráðs, í aðfaraorðum, með leyfi forseta: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. […] Ísland er frjálst og fullvalda ríki með jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteini.“ Þá veltir maður fyrir sér hvað réttlátt samfélag er og eins því að allir sitji við sama borð. Er það svo?

Mér hefur fundist að það hefði átt einmitt að víkja að því í umfjöllun hópsins. Hvernig er staðan í dag? Og hvar er þá brýnast að taka á? Hafa til dæmis allir, óháð búsetu í landinu, sama rétt og möguleika til menntunar og með sama kostnaði? Nei, það er fjarri því. Fólk sem býr úti á landi þarf að senda börn sín langt frá sér í skóla og greiða af því kostnað auk þess sem það verður ekki að teljast mjög fjölskylduvænt að börnin þurfi að fara að heiman jafnvel ung. Vissulega er verið að vinna að því að koma þessu í betra horf en þetta er ekki svona alls staðar á landinu og það er eins gott að menn leiði líka hugann að því.

Við höfum rætt um heilbrigðisþjónustuna. Fólk á landsbyggðinni þarf oft að sækja heilbrigðisþjónustu um býsna langan veg, ég tala ekki um ef það þarf að fara í meiri háttar aðgerð eða jafnvel að fæða barn sem talið er hið besta mál. Við Íslendingar viljum heldur hvetja til þess heldur en hitt að sem flest börn fæðist og við sem bestar aðstæður. En það eru ekki nema örfáir staðir á landinu sem geta tekið á móti barnshafandi konum að uppfylltum skilyrðum. Hvað gerist þá? Jú, það eru ferðalög, kostnaður og fjölskyldulegt álag sem því fylgir. Er þarna jafnræði á ferð? Nei.

Í síðari hluta 14. gr. skýrslunnar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.“

Mjög gott mál. En hvernig er þetta? Landsbyggðarfólk sem hefur um árabil barist fyrir aðgengi að háhraðatengingum verður kannski að leita til dómstóla til að sækja um að það eigi sama rétt og aðrir til þeirra atriða sem tilgreind eru sérstaklega í frumvarpinu og sýnir að mínu viti vissa vankunnáttu eða verulegan mun á tilveruheimi margra og á því sem birtist þarna og raunveruleikanum úti á landi, því að þessi háhraðatenging sem verið er að leggja áherslu á að allir eigi jafnan og öruggan aðgang að er ekki til staðar víða úti á landi. Veruleikinn í efnisumfjöllun frumvarpsins, þó að það séu allt saman góðar meiningar, er að mínu viti oft og tíðum nokkuð takmarkaður.

Við sjáum líka að með gríðarlegri hækkun á eldsneyti, bæði vegna hækkunar á innkaupsverði á olíu og aukinna álaga ríkissjóðs á eldsneyti, gerist það að fólkið sem býr í hinum dreifðu byggðum og þarf að sækja þessa sömu opinberu þjónustu og við erum að tala um verður að borga miklu meira til að geta sótt hana og þarf yfirleitt að aka lengra til vinnu sinnar o.s.frv. Tillögur hafa komið fram að komið verði til móts við þessi atriði, t.d. í gegnum skattkerfið. Þannig er það í sumum löndum að ég held, t.d. í Noregi, þar sem að hluta til er komið til móts við þetta. Þetta er ekki nefnt í skýrslunni, sá mismunur sem nú þegar er til staðar varðandi þau meginmarkmið sem lögð eru til og áhersla er á í þessari skýrslu. Þessir heimar sem verið er að tala um eru því býsna ólíkir.

Við höfum talað um og bent á að verið er að fækka hjúkrunarheimilum sem þýðir að eldra fólk þarf að fara lengra og lengra frá fjölskyldufólki sínu til að vera á hjúkrunarheimilum. Ég minntist á heilbrigðisþjónustuna. Ég get líka minnst á almannatryggingakerfið þar sem þátttaka almannatryggingakerfisins í því að sækja þessa þjónustu er kannski bundin við einhvern tiltekinn fjölda ferða og svo punktur. Kostnaðurinn er áfram miklu þyngri á fólkinu sem verður að leita þarna langt.

Við vitum að Alþingi kemur saman í Reykjavík og það voru kannski mistök að setja það ekki bara niður á Þingvöllum eða Akureyri eða hafa það til skiptist á öðrum hvorum staðnum alveg eins og við gerum með landsmót hestamanna. Og þá mundi líka byggjast upp önnur aðstaða og þjónusta við það. En það sem er grínlaust í þessu efni er að hér á ákveðnum stað safnast upp öll stjórnsýslan og fólk sem vill taka þátt í starfi stjórnsýslunnar eða ákvarðanatökum á hennar vegum verður þá að koma að stórum hluta hingað til Reykjavíkur til að taka þar þátt. Það er býsna mikill kostnaður sem því fylgir, tími, ferðir og annað því um líkt. Það eru því alls ekki jöfn skilyrði fyrir fólk sem býr úti á landi, fulltrúa sveitarfélaga, stofnana eða samtaka úti á landi að fá að taka virkan þátt bæði í undirbúningi og ákvarðanatöku stjórnsýslunnar sem fer fram hér.

Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessari umræðu, úr því að hún er komin á þetta skrið, að horft sé til hins raunverulega jafnræðis. Við getum þá líka talað um fatlaða eða þá sem geta ekki sótt eða farið um með sama hætti og fullfrískt fólk. En ég vildi víkja sérstaklega að hinni búsetutengdu aðstöðu og mismunun sem fólk býr við.

Mér finnst ósköp eðlilegt að menn velti fyrir sér kjördæmaskipan og atkvæðum fólks hvað varðar kjör manna, hvort sem er í sveitarstjórnir eða á Alþingi, það er bara mjög eðlilegt en þá verða menn að gera það í réttu samhengi. Umræðan verður að vera í því samhengi að menn ætli sér að ná og horfi til jafnræðis á möguleikum og aðstöðu fólks óháð búsetu og forgangsraða í þá veruna að ná þeim markmiðum.

Frú forseti. Þetta voru þau áhersluatriði sem ég ætlaði að leggja fram og hvet til þess að menn horfi á það heildstætt þegar verið er að ræða kjör og aðstöðu fólks. Ég hef sérstaklega gert að umtalsefni aðstöðu fólks eftir búsetu í landinu sem ég tel að þurfi stórlega að bæta og það hefði átt að vera markmiðsgrein í þessari álitsgerð sem við erum að ræða og fjalla um.