140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

frekari aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi.

501. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér þykir skipta miklu og fagna því að það sé vilji til þess af hálfu ráðherra og ráðuneytisins í samvinnu við skatteftirlit og skattrannsóknarstjóra að fylgja þessum málum eftir. Það hefur lengi verið umræða í samfélaginu um nauðsyn þess að uppræta skattsvik. Einn liður í þeim þáttum sem hafa verið til skoðunar er svokölluð svört atvinnustarfsemi. Hún lýtur ekki eingöngu að því að ríkið, hið opinbera og sveitarfélögin, lífeyrissjóðirnir og starfsfólkið sjálft verði af stórfelldum réttindum og tekjum til að standa undir eigin framfærslu eða rekstri samfélagsins, ég tala nú ekki um á tímum eins og núna þegar við þurfum á hverri einustu krónu að halda til að halda úti velferðarþjónustu okkar, heldur líka hinu að það er verið að tryggja jafnræði og jafnrétti á vinnumarkaði milli atvinnufyrirtækja þannig að atvinnulíf í landinu sé heilbrigt.

Þess vegna hefur mér fundist það skipta verulega miklu máli að þeir aðilar sem tengjast þessum þáttum í réttindasamfélagi okkar, bæði Alþýðusambandið gagnvart réttindum launþega og Samtök atvinnulífsins gagnvart réttindum þeirra sem eru að bjóða hér upp á og halda úti atvinnustarfsemi, séu þátttakendur og sýni þar með alvöru þessa máls, að það skiptir öllu að hér séu menn í sama rétti og það sé tryggt að þær fjárhæðir sem þarna eru undir borðum skili sér inn í samfélagið.

10 milljarðar, eins og áðan var nefnt, eru engar smáfjárhæðir. Það hefði verið kostur að hafa þá peninga til að tryggja ýmislegt í okkar velferðarþjónustu og jafnvel hefðu þær upphæðir getað komið í veg fyrir að við þyrftum að fara hér fram með niðurskurð í heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) eða á öðrum sviðum.