140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

630. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra en ég ítreka spurninguna. Hún var hvort hæstv. ráðherra teldi að auglýsing og ráðningarferli hins nýja prófessors væri í samræmi við orð hæstv. ráðherra frá Hrafnseyri 17. júní 2011 um að sá sem mundi gegna stöðunni hefði fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni.

Mér finnst svarið blasa algerlega við. Þessi framgangsmáti Háskóla Íslands er ekki í samræmi við yfirlýsingu hæstv. ráðherra á Hrafnseyri. Sú yfirlýsing vakti með Vestfirðingum gríðarlega miklar væntingar. Henni var almennt fagnað, það var eftir henni tekið og um hana fjallað í fjölmiðlum á svæðinu. Menn töldu að upp væri að renna nýr tími. Síðan fann Háskóli Íslands greinilega krókaleiðir fram hjá yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra og krókaleiðir fram hjá samþykkt Alþingis eða þess anda samþykktar Alþingis sem kemur greinilega fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Það finnst mér hraklegt. Mér finnst ekki samboðið Háskóla Íslands að vinna með þessum hætti. Þetta er bara aðferð til að plata okkur dálítið, komast fram hjá þessu án þess að nokkur geti sagt að beinlínis hafi verið brotið gegn samþykkt Alþingis. Það er enginn vafi á því eins og málinu er stillt upp af háskólanum að algerlega er farið á svig við þær yfirlýsingar sem hæstv. forsætisráðherra gaf og þær væntingar sem þessar yfirlýsingar síðan vöktu.

Ég efast ekkert um að úr því sem komið er verður reynt að gera eins gott úr þessu eins og hægt er. Það er út af fyrir sig kannski fagnaðarefni að til standi að leigja hús þannig að þessi prófessor þurfi ekki að búa á hóteli. Það er jafnvel það eina sem er orðið naglfast núna. Hitt er líka áhugavert, að það eigi að koma með einhver námskeið vestur, en það er ekki það sem að var stefnt. Menn ætluðust til að þarna yrði staðsettur prófessor sem starfaði á vettvangi Háskóla Íslands, hefði starfsstöð og búsetu á Ísafirði, (Forseti hringir.) og það yrði síðan til þess að efla rannsóknar-, þróunar- og kennslustarfsemi við háskólasetrið í tengslum við starfsstöðvar (Forseti hringir.) Háskóla Íslands á Vestfjörðum.